Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ástin er sjálfsmynd

Mynd: hallaharðar  / hallaharðar

Ástin er sjálfsmynd

08.02.2018 - 12:33

Höfundar

„Mig langaði til að segja eitthvað nýtt um ástina, en svo hugsaði ég, nei vá, hvílíkur hroki er það Elísabet, það getur bara enginn sagt eitthvað nýtt um ástina. En svo þegar ég sé sýninguna þá er eitthvað nýtt, það er eitthvað sem þau hafa búið til sem er ekkert endilega frá mér,“ segir Elísabet Jökulsdóttir um sýninguna Ahhh... sem leikhópurinn Ratatam frumsýnir á föstudag í Tjarnarbíó.

Það er Charlotta Böving sem leikstýrir hópnum þeim Laufeyju Elíasdóttur, Albert Halldórssyni, Halldóru Rut Baldursdóttur og Guðmundi Inga Þorvaldssyni. Hópurinn vakti athygli á síðasta ári með sýningunni Susss... sem tókst á við heimilisofbeldi. Í þetta sinn takast þau á við ástina og segja það kærkomið viðfangsefni og lofa góðri og ljóðrænni skemmtun, en verkið skapa þau upp úr textum Elísabetar Jökulsdóttur.

Ástarherinn

„Ástin er svo mikil sjálfsmynd,“ segir Elísabet. „Hvernig þú elskar og hvernig þú ferð að því að sýna ástina og finna ástina það segir svo mikið um þig. Mér finnst oft eins og við séum í einhverjum ástarher hérna í samfélaginu, að allir eigi að elska eins, líkt og þetta með mataræðið, að allir eigi að borða sama mat og allir eigi að vera í jóga eða hugleiðslu. En hvernig er Elísabetar ást og hvernig er Charlottu ást? Ástin er alltaf að leita að samruna við aðra. Má ég sjá þig og hvernig ertu, hvað er að frétta af þér?“
 

Marglitaður ástarheimur

„Já, stundum finnst mér magnað af við maðurinn minn höfum verið saman í 20 ár því ástin er svo flókin, sérstaklega í ástarsamböndum. Ekki gagnvart börnunum manns, það er svo einfalt. Það er auðvelt með börn og hunda og hesta,“ segir Charlotta og hlær. „Leikhúsið á alltaf að vera spegilmynd af heiminum sem við þekkjum. Ástarheimur Elísabetar er mjög marglitaður og mér finnst hún skemmtileg. Svo þetta verður skemmtilegra en minn heimur,“ segir Charlotta og allar skellihlæja þær. „Já, en þetta fjallar líka um ástina til náttúrunnar og stóra heimsins,“ segir Laufey.  

Rætt var við Elísabetu, Charlottu og Laufey í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan, auk brots úr verkinu. Tónlistin sem hljómar er úr verkinu en hana semur Helgi Svavar Helgason.