Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ástarsaga sem kveikir í manni

Mynd: Tjarnarbíó / Tjarnarbíó

Ástarsaga sem kveikir í manni

04.12.2017 - 18:08

Höfundar

„SOL er sýning um kima nútímans sem alltof lítið er fjallað um og er sjaldan hluti af því menningarlega umhverfi sem leikhúsið er hluti af,“ segir leikhúsrýnir Víðsjár, Guðrún Baldvinsdóttir, um SOL, nýtt íslenskt leikverk sem er sýnt í Tjarnarbíói.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Á föstudaginn síðasta var áhugavert nýtt verk frumsýnt í Tjarnarbíói af leikhópnum Sóma þjóðar í leikstjórn Tryggva Gunnarssonar. Verkið, sem ber heitið SOL, er eftir Tryggva og Hilmi Jensson sem einnig fer með eitt aðalhlutverkanna. Ekki er langt síðan síðasta sýning Sóma þjóðar var sett á svið en það var verkið Þúsund ára þögn sem var sett upp í Mengi og í Tjarnarbíói fyrr á þessu ári. Hér er þó á ferð allt öðruvísi sýning en ekki minna spennandi.  

Verkið SOL fjallar um unga manninn Davíð sem er hættur að fara út og gerir ekki annað en að spila tölvuleiki dag og nótt. Hann spilar online leiki og hefur í einum þeirra kynnst íslensku stelpunni SOL. SOL er þekkt innan tölvuleikjaheimsins fyrir að eiga hæstu stigatölurnar og aðrir komast ekki með tærnar þar sem hún hefur hælana. Davíð laðast að SOL og vill hvergi annars staðar vera en að spila með henni. Þau þróa með sér samband sem á sér þó eingöngu stað innan veggja leiksins.

Það eru þau Salóme Rannveig Gunnarsdóttir og Hilmir Jensson sem fara með hlutverk þeirra SOL og Davíðs og Kolbeinn Arnbjörnsson sem fer með hlutverk tappans og vinarins Hauks. Leikararnir þrír standa sig öll með prýði og koma þau flóknum tilfinningum persónanna vel til skila. Þau Salóme og Hilmir leika í raun tvær persónur hvort, enda gjörólíkir persónuleikar eftir því í hvaða heimi þau eru stödd hverju sinni. Nándin milli þeirra tveggja verður síðan áþreifanleg og ágerist með hverri senunni.

Tölvuleikir í sviðsljósinu

Þótt sýningin fjalli um tölvuleiki er hér  ekki á ferð einföld gagnrýni á vanda sem fylgir aukinni tölvuleikjafíkn ungs fólks. Í sýningunni fær tölvuleikjamenning sinn sess og vekur upp nostalgíu meðal þeirra sem hafa á einhverjum tímapuknti spilað slíka leiki. Umræðan um tölvuleiki á það oft til að staðna við spurninguna um skaðsemi þeirra. Í sýningunni er þeim gert hátt undir höfði án þess þó að loka augunum fyrir fíkninni sem getur vissulega fylgt þeim.

Persónur verksins minnast á ótalmarga leiki, einhverja sem margir þekkja og aðra sem líklega færri, eða að minnsta kosti ekki ég - þekkja. Counter Strike, World of Warcraft, Duck Hunt, Dishonored, Tekken,  Arizona Sunshine og líklega voru mun fleiri sem fóru framhjá mér. En þótt sagan hverfist um tölvuleiki er verkið þó fyrst og fremst ástarsaga tveggja einstaklinga, þó samskipti þeirra eigi sér stað í sýndarveruleika.

Tveir heimar á einu sviði

Þau Salóme og Hilmir standa sig einstaklega vel í sýningunni. Hilmir hefur áður sýnt hversu vel hann getur glætt persónur lífi með smáatriðum, hiki og kækjum. Það kom enn betur í ljós í þessari sýningu þar sem Davíð breytist algjörlega þegar hann stígur inn fyrir veggi tölvuleikjanna. Salóme sýndi á sér nýjar og spennandi hliðar í hlutverki SOL, og var það þá fyrst og fremst ótrúlegur styrkur persónunnar sem hún náði að koma vel til skila.

Sviðsmynd sýningarinnar byggist á tveimur rýmum sem aðskilin eru með pramma sem er hýfður upp og er þá nýtttur sem tjald sem tölvuleikjunum er varpað á. Leikararnir eru þá staðsettir innan ímyndaðra veggja leiksins. Þess á milli er pramminn látinn síga niður og kemur þá í ljós einfalt herbergi Davíðs með rúmi, skrifborði og skáp. Þessi sniðuga lausn skerpir á aðgreiningunni milli heimanna tveggja og gerir leikurunum auðveldara fyrir að sýna hvernig persónur þeirra breytast eftir því hvort þeir séu staddir í raunheimi eða í heimi leiksins.

Spila leik í fullkomnum samhljómi

Auk þess hefur gríðarleg vinna verið lögð í allan sýndarheiminn en það eru þeir Tryggvi Gunnarsson, Hafliði Emil Barðason og Valdimar Jóhannsson sem standa að baki hönnunar á hljóðheimi, tæknivinnu og leikmynd. Mikið hefur þurft til að allt passaði saman og ekkert færi úrskeiðis.

Dansatriði Sigríðar Soffíu Níelsdóttur voru góð viðbót við söguna, þá sérstaklega löng sena í upphafi sambands þeirra Davíðs og SOL þar sem þau, ásamt Hauki spila í langri orrustu eins leiksins. Gríðarlegur styrkur SOL er augljós á meðan Haukur höktir í sama farinu við hliðarlínuna. Davíð og SOL spila leikinn saman í fullkomnum samhljómi og gefur tóninn fyrir sérstakt samband þeirra.

Óteljandi rými

Tölvuleikir eru stór hluti af lífi margra en eru oft afskrifaðir sem fíknivaldur. Framan af í sýningunni gerum við ráð fyrir því að það sé boðskapurinn: að Davíð lifi í heimi sem er ekki til og að hann lifi í blekkingu, rétt eins og Haukur vinur hans reynir að segja honum. Davíð á við vanda að stríða, vissulega, en það fallega við söguna er að erfiðleikarnir eru ekki einfaldaðir niður í svart og hvítt, gott og vont. Og raunheimurinn sem við þekkjum er nú aðeins eitt af mörgum  rýmum sem við verjum tíma okkar í.

Mannkynið hefur í gegnum tíðina skapað sér óteljandi ímynduð rými og það er ekkert sem varð aðeins til með tölvunni eða internetinu. Kerfin sem við lifum innan hefur mannfólkið búið til, lög, siðir og venjur eru hluti af þessum rýmum og eru ekki raunverulegri en persónur í tölvuleik, nema fyrir þær sakir að við viðurkennum stöðu þeirra.  Við erum minnt á þetta í sýningunni og hnyppir þar að auki í okkur þar sem við gleymum okkur í einn einum ímynduðum heimi, heimi leikhússins.

Sýningin SOL kveikir í manni, hún vekur mann til lífsins og til umhugsunar. SOL er sýning um kima nútímans sem alltof lítið er fjallað um og er sjaldan hluti af því menningarlega umhverfi sem leikhúsið er hluti af. Ég get ekki mælt nógu mikið með sýningunni SOL, en hvet alla til þess að kíkja í Tjarnarbíó á þetta metnaðarfulla verk.