Ástarlög geta líka fjallað um ofbeldi og neyslu

Mynd: Davíð Roach / RÚV

Ástarlög geta líka fjallað um ofbeldi og neyslu

31.01.2020 - 14:36

Höfundar

„Ástin er bara eins og demanturinn. Þú snýrð demantinum og þá koma alls konar fletir og ljósið fellur á hann á mismunandi stöðum,“ segir Bubbi Morthens sem mætti með kassagítarinn í Síðdegisútvarpið og úttalaði sig um ástina.

Bubbi hefur ekki nákvæma tölu á því hversu mörg lög hann hefur samið um ástina. „En ég gæti haldið tvegga tíma tónleika bara með ástarlögum,“ segir hann. „Og ég er að fara að gera það 14. febrúar,“ bætir hann við hlæjandi. Hann túlkar þó ástina vítt og það verður alls ekki boðið upp á eintóma vellu. „Það gætu verið lög um ofbeldi sem er í ástarsamböndum til dæmis. Ég er líka að syngja um brotin sambönd, sársauka sem ástin hefur valdið og allt þar á milli.“

Bubbi er áberandi á samfélagsmiðlum þar sem einn af hans helstu frösum er „Ást er allt sem þarf.“ „Hugsið ykkur bara idjótið hann Trump. Ef hann væri fullur af kærleika og ást? Þetta er maður sem er hrikalega trámaður og það kemur fram í öllu sem hann gerir. Hann er með allt í skotstöðu alltaf, og alltaf til í að tala illa um fólk. Þetta er allt út af því hann hefur ekki fengið neina ást eða kærlega í uppeldi og æsku. Ef við getum sýnt börnunum okkar óskilyrta ást, því þú getur ekki sett skilyrði á kærleika. Trump vantar þetta fólk í kring um sig, hann er bara með fólk í kring um sig sem hleypur á eftir geðveikinni í honum.“ 

Bubbi telur að ef fleiri myndu lifa eftir þessari speki væri heimurinn betri. Hann viðurkennir að hann kunni að hljóma eins og blómabörnin í San Fransisco sumarið 1967 en það verði bara að hafa það. „Já, já, sköllóttur gamall hippi.“ Bubbi segir að ástarlög sem eru samin um tiltekna manneskju geti farið sínar eigin leiðir síðar og merking þeirra jafnvel yfirfærst. „Til dæmis Það er gott elska sem er samið þegar ég bý með Brynju sem ég sannarlega elskaði út af lífinu, og samdi mörg falleg lög til hennar. En um leið eru þau lög lög allra hinna kvennanna, og þær geta tekið þau lög til sín og gera það.“ Hann segir að hver einasta kona eða karl sem sé ástfangin geti líka gert lagið að sínu. Rómeó og Júlía er annað ástarlag Bubba. „Þetta er ástarlag tveggja fíkla sem spyrða sig saman í gegnum dæluna. Þó það sé ekki hin venjulega ástarmynd sem við höfum er það samt lag um ástina.“

Andri Freyr Viðarsson og Guðmundur Pálsson ræddu við Bubba Morthens í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron Mola varð kjaftstopp þegar Bubbi gekk inn

Tónlist

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV

Myndlist

Bubbi sýnir málverk á fullveldishátíð Tolla

Tónlist

Bubbi: „Þá endarðu bara einn úti í horni“