Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ástand Þorbjarnar óbreytt

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Allt er með tiltölulega kyrrum kjörum á Reykjanesskaga, þar sem jörð hefur skolfið og land risið óvenju mikið að undanförnu vegna mögulegrar kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni, mitt á milli Grindavíkur og Svartsengis. Almannavarnir virkjuðu í gær óvissustig vegna þessa og boðað hefur verið til íbúafundar í Grindavík klukkan fjögur í dag, þar sem farið verður nánar yfir stöðuna. Samhliða hefur Veðurstofa Íslands fært litakóða fyrir flug á gult.

Tíðindalaust hefur verið af Þorbirni og nágrenni í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands, en náttúruvársérfræðingar hennar fylgjast grannt með hverri minnstu hræringu undir honum og allt um kring. Nokkrir skjálftar urðu þar í gærkvöld og nótt, sá stærsti laust eftir ellefu í gærkvöld. Sá var 2.1 að stærð, en aðrir hafa verið undir tveimur.