Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ástand sprautufíkla hefur versnað

08.01.2018 - 14:37
Kári Stefánsson og Þórarinn Tyrfingsson, sem ræddu erfðir fíknar í Morgunútgáfunni.
 Mynd: Óðinn Jónsson - RÚV
Þórarinn Tyrfingsson fyrrverandi forstjóri Sjúkrahússins á Vogi segir að ástand þeirra sem sprauta sig í æð og eru á útigangi hafi versnað. Þeim stofnunum sem eiga að sinna þeim hafi fækkað verulega.

Rætt var við Þórarinn Tyrfingsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Ástandið er versnandi að því leyti að þeir sem sprauta sig í æð að meðalaldur þeirra er að hækka í þjóðfélaginu og hluti þeirra er eins og við köllum á útigangi og það má búast við að ástand þeirra sé þess vegna að versna í hópnum.“ 

Innan heilbrigðiskerfisins hafi rúmum fyrir þá fækkað. Ekkert rúm er fyrir þá nú á Landspítalanum.  „Og hjá SÁÁ hefur þeim fækkað rúmunum sem heilbrigðisráðuneytið greiðir að fullu niður í 42 sem þau eru núna.“

Þórarinn segir að þeim sem sprauta sig með vímuefnum hafi ekki fjölgað. „En heilbrigðisþjónustan  hefur minnkað verulega af því það þarf að afeitra þetta fólk. Það tekur langan tíma og síðan þarf að bjóða því viðeigandi meðferðarkosti sem eru ekki of dýrir fyrir þetta fólk og þeim hefur fækkað út af þessari almennu stefnu.“
 
Auka þurfi fjármagn til að hægt sé að bæta þjónustuna. „Það er fyrst og fremst geðdeildin sem hefur hrunið það er fyrst og fremst það sem hefur gerst og þetta hefur allt færst í félagslega þjónustu sem ekki miðar að því að fækka þessu fólki.“ 
 
Sveltistefna hafi verið gagnvart SÁÁ í áratug. Félagið borgi nú 150 til 200 milljónir með sjúkrahúsinu Vogi á hverju ári.  Þórarinn segir að hægt sé að auka umfang starfseminnar á Vogi. „Til þess að vel sé þarf að setja svona 200 milljónir í Voginn á ársgrunni.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV