Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Assange hugsanlega gabbaður

07.12.2013 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Haldið er fram á erlendri vefsíðu að Julian Assange forsprakki Wikileaks, hafi sagt í vefsamtali við hermanninn Chelsea Manning að Wikileaks hefði undir höndum upptökur úr símum Alþingis. Heimildir fréttastofu herma að Assange hafi verið gabbaður til að halda að hann hefði þessar upplýsingar.

Bandaríski vefmiðillinn Wired.com birti í gær skjal sem fullyrt er að komi frá bandaríska hernum og innihaldi afrit af vefsamtölum á milli Julian Assange og Chelsea Manning, en hún var nýlega dæmd í 35 ára fangelsi fyrir að leka trúnaðargögnum frá bandaríska hernum. Stimpill á skjalinu bendir til að samtalið hafi verið sönnunargagn í réttarhöldunum gegn Manning.

Í samtölum sem dagsett eru í mars 2010 segist notandinn Nathaniel Frank, en fullyrt er að Assange hafi notað það nafn, hafa komist yfir upptökur af símtölum úr símum Alþingis siðustu fjóra mánuði, en ekki kemur fram að Assange hafi hlustað á upptökurnar.

Í febrúar 2010 fannst dularfull tölva í húsnæði nefndarsviðs Alþingis, en grunur lék á að hana hafi átt að nota til að komast yfir tölvugögn þingmanna. Assange segir í samtalinu að lögreglan hafi fylgst með sér hér á landi. Á öðrum stað lýsir hann því að heimildarmaður hér hafi afhent sér 10 gígabæt af skjölum úr bankakerfinu. Heimildarmaðurinn hafi verið handtekinn en verið boðnar 15 milljónir króna fyrir að þegja yfir upplýsingunum.

Heimildir fréttastofu herma að Assange hafi verið plataður til þess að halda að hann væri með þessar upplýsingar auk annarra gagna undir höndum.  Kristinn Hrafnsson talsmaður Wikileaks sagðist í samtali við fréttastofu ekki kannast við að samtökin hefðu haft umrædd gögn undir höndum. 

Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að fréttir af málinu hafi komið sér í opna skjöldu, enda hafi hann ekki grunað að verið að hlera síma Alþingis: „Upplýsingar sem bera það með sér að einhver telji að það sé verið að hlera síma Alþingis eru auðvitað upplýsingar af því taginu að við hljótum að taka það alvarlega. Það gerum við og höfum þegar hafið vinnu með sérfræðingum til þess aðreyna aða skilja þetta mál betur".