Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ásmundur hafi farið fram úr sér

13.01.2015 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekkert tilefni til að skoða bakgrunn múslima á Íslandi í ljósi hryðjuverkanna í Frakklandi. Hugmyndir Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns endurspegli ekki viðhorf Sjálfstæðisflokksins - hann hafi farið fram úr sér.

Yfirlýsing Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Facebook hefur vakið hörð viðbrögð. Hann spurði í ljósi hryðjuverkanna í París hvort við værum örugg á Íslandi, og hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hefði verið kannaður. Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem fréttastofa ræddi við í dag tók undir þessar spurningar, og félagsmálaráðherra gagnrýndi ummæli hans.

Bjarni tekur undir þessa gagnrýni. „Mér finnst í fyrsta lagi augljóst að það er ekkert tilefni til að fara í slíka skoðun. Í öðru lagi erum við ekki samfélag sem byggir á réttarreglum sem heimila neitt slíkt og mér finnst að Ásmundur hafi farið fram úr sér. Þetta endurspeglar svo sannarlega ekki það viðhorf okkar að við eigum að byggja samfélag okkar á grundvallarmannréttindum sem þessar hugmyndir ganga þvert gegn.“