Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áslaug auglýsir eftir lögreglustjórum og sýslumanni

ríkislögreglustjóri, húsnæði ríkislögreglustjóra
 Mynd: ruv.is
Dómsmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum í þrjú embætti sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra þarf að skipa í á næstunni. Embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Austurlandi og sýslumannsins í Vestmannaeyjum eru laus til umsóknar.

Skipað verður í embættin þrjú frá 1. mars næstkomandi til fimm ára. Umsóknarfresturinn er  til 10. janúar.

Hæfnikröfurnar fyrir embættin þrjú eru samskonar í íslenskum lögum. Umsækjandi þarf að hafa náð 30 ára aldri, hafa íslenskan ríkisborgararétt, vera þannig á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gengt embættinu, vera lögráða og ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt traust hans í embætti. Þá þurfa umsækjendur að hafa lokið lögfræðiprófi eða sambærilegu prófi.

Í auglýsingunum fyrir embættin þrjú segir að umsækjandinn þurfi helst að uppfylla eftirfarandi atriði. Þó er ekki um skilyrði að ræða.

  • Reynsla af árangursmiðaðri stjórnun og stefnumótun æskileg.
  • Góð þekking og yfirsýn á verkefnum lögreglunnar æskileg.
  • Góð þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar æskileg.
  • Rekstrarþekking og/eða reynsla er æskileg.
  • Reynsla af alþjóðlegu samstarfi kostur.
  • Mjög góð forystu-, samvinnu- og samskiptahæfni.
  • Fagmennska, frumkvæði, drifkraftur og jákvæðni.
  • Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti.
  • Þekking á einu Norðurlandamáli æskileg.

Nýr ríkislögreglustjóri leiðir vinnu með ráðherra

Áslaug Arna kynnti á dögunum nýtt lögregluráð sem nýr ríkislögreglustjóri mun fara fyrir. Í ráðinu sitja lögreglustjórar landsins og verður það samráðsvettvangur þeirra. Ráðherra vonar að þetta muni meðal annars vera til fjárhagslegs hagræðis fyrir embættin.

Í auglýsingu eftir nýjum ríkislögreglustjóra segir að „hann muni leiða vinnu við breytingar innan embættisins ásamt dómsmálaráðuneytinu, m.a. með því að leiða Lögregluráð sem er nýr og formlegur samráðsvettvangur lögreglu, og koma að vinnu við stefnumótun innan lögreglunnar í heild sinni“.

Eyjamenn fá sýslumann aftur

Frá og með 1. mars verður, samkvæmt auglýsingunni, aftur sýslumaður í Vestmannaeyjum. Embætti var fellt undir embætti sýslumannsins á Suðurlandi í byrjun þessa árs. Sýslumannsleysinu var mótmælt í bæjarstjórn Vestmannaeyja og af Páli Magnússyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og fyrsta þingmanni kjördæmisins.