Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Áskorun að halda þessum leiðangri áfram“

06.11.2017 - 22:53
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hátt í 30 manns komu að björgun svissneskrar fjölskyldu úr skútu sem losnaði frá bryggju á Akureyri í nótt. Fjölskyldufaðirinn segist ekki muna eftir öðrum eins öldugangi. 

Skútan losnaði frá bryggju í gífurlegu hvassviðri sem reið yfir laust eftir miðnætti. Um borð var átta manna fjölskylda, en hjónin Dario og Sabine Schwörer hafa í 18 ár búið á skútunni, ferðast um heiminn og frætt fólk um umhverfisvernd. Dario segist aldrei hafa lent í öðrum eins öldugangi, sem gerði það að verkum að allar festingar gáfu sig. 

„Bryggjan var eins og snákur sem fór upp og niður um einn og hálfan metra,“ segir Dario. Skútan hafi verið fest við bryggju með fjölmörgum reipum, en það hafði ekkert að segja í ofsaveðrinu, þau hafi hreinlega slitnað.  

„Ég sagði bara við alla; við verðum að biðja og halda áfram að biðja. Sérstaklega fyrir börnin svo þau færu ekki að hugsa um hvað gæti gerst. Ég sá fyrir mér skútuna sökkva fyrir framan mig,“ segir Sabine.

Eftir mikla baráttu tókst að stýra bátnum að næstu flotbryggju, þar sem hann barðist við kantinn í lengri tíma áður en tókst að festa hann. Hátt í 20 björgunarsveitarmenn, lögregla, slökkvilið og sjálfboðaliðar tóku þátt í að ferja skipverja í land. Börnunum, sem eru á aldrinum þriggja mánaða til 12 ára, var brugðið. 

„Það heyrðist hvellur og við vöknuðum öll. Svo komu fleiri hvellir, fjórir hvellir og svo vorum við laus ,“ segir Salina, 12 ára dóttir þeirra hjóna. Andri, 10 ára bróðir hennar, segist hafa verið brugðið „Já, þetta var áfall en ég trúði því að þessi skúta kæmist í gegnum þetta því hún er smíðuð úr sterku efni,“ segir hann. 

Skútan skemmdist í látunum og flæddi inn í hana. Nú verður lagt mat á skemmdirnar og reynt að gera við og hefur fjölskyldan fengið afnot af húsnæði næstu daga. Þau ætluðu að vera á Akureyri í allan vetur.

„En fyrir okkur er meiri háttar átak og áskorun að halda þessum leiðangri áfram,“ segir Dario.