Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

ASÍ reiknar út skattalækkanirnar

18.09.2019 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Skattur þeirra, sem eru á lágmarkslaunum, lækkar um 2.900 krónur á mánuði á næsta ári en 8.300 á þarnæsta. Þau, sem hafa milljón á mánuði, lækka um 1.850 krónur á mánuði á næsta ári og 3.800 á þarnæsta.  Þetta kemur fram í tölum, sem hagdeild ASÍ hefur tekið saman, um skattbyrði almennings eftir núverandi tekjuskattkerfi og hinu þrískipta sem tekur gildi á næsta ári en verður að fullu komið til framkvæmda 2021.

Miðstjórn ASÍ fagnaði þriggja þrepa skattkerfinu á fundi sínum í dag en lýsti verulegum vonbrigðum með hve seint breytingar kæmu til framkvæmda. Forseti ASÍ sagði í fréttum klukkan sjö að fólk biði óþreyjufullt eftir breytingunum.  

Í krónum talið verður breytingin ekki mikil á skattbyrði á næsta ári en ASÍ miðar við verðlag 2019 í útreikningum sínum. Mestu breytingarnar eru í kringum 350 þúsund króna skattskyldar tekjur á mánuði. 

Þau, sem eru með lágmarkslaun 317 þúsund á mánuði, greiða nú tæpar 55.900 kr. í skatt á mánuði. Þetta lækka um tæpar 2900 kr. á næsta ári en 8.300 á þarnæsta. 

Skattalækkun þeirra sem eru með hálfa milljón á mánuði verður nánast sú sama í krónum talið og þeirra sem eru á lágmarkslaununum.  

Og eins og stefnt var að fá þau sem hærri hafa tekjur ekki eins mikið. Þau sem eru með eina milljón á mánuði lækka um 1.850 krónur á mánuði á næsta ári og tæpar 3800 árið 2021.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV