Ásgeir: Leggjum á okkur kostnað til að bjarga lífum

25.03.2020 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
„Við erum að leggja á okkur kostnað til að bjarga mannslífum. Það mun hafa áhrif á okkur öll“, sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi í Seðlabankanum í morgun. Þar rökstuddi hann ákvörðun peningastefnunefndar um að hefja kaup á ríkisskuldabréfum á markaði. Á sama fundi kynnti Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sviðsmyndir bankans varðandi áhrif COVID-19-faraldursins á hagkerfið. 

Ásgeir sagði að heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir væri ekki einstakur. Slíkir faraldrar riðu yfir tvisvar til þrisvar á öld. Það sem væri hins vegar einstakt væru þær aðgerðir sem verið væri að ráðast í til að stemma stigu við honum og bjarga mannslífum. Af þessum aðgerðum hlytist kostnaður fyrir alla. 

Markmið Seðlabankans með kaupum á ríkisskuldabréfum á markaði er að stuðla að því að vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér betur til fyrirtækja og heimila. Seðlabankinn sagði að bankinn hefði heimild til að kaupa skuldabréf fyrir 150 milljarða króna. Enn ætti eftir að ákveða útfærsluna og ekki liggur fyrir hversu mikið verður keypt. Ásgeir sagði að lausafjárstaða ríkisins væri ágæt núna þannig að bankinn hefur nokkrar vikur til þess að útfæra þessa aðgerð, sem bankinn hafi ekki beitt áður en sé hugsuð til langs tíma. 

Búast við efnahagsbata strax á næsta ári

Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur sagði óvissuna í efnahagsmálum vera mikla. Við þessar aðstæður væri ekki hægt að birta spá en hann kynnti tvær sviðsmyndir sem Seðlabankinn hefur unnið. Í þeirri mildari fækkar ferðamönnum um þriðjung frá því í fyrra en í dekkri myndinni fækkar þeim um helming. Þá er gert ráð fyrir að útflutningur sjávarútvegs minnki. Mildari útgáfan gerir ráð fyrir að meðalatvinnuleysi á árinu verði 5,7-7 prósent. Þórarinn lagði áherslu á að þarna væri verið að tala um meðalatvinnuleysi ársins og að atvinnuleysi á árinu gæti orðið enn meira. 

Bæði Ásgeir og Þórarinn lögðu áherslu á að efnahagsáfallið vegna COVID-19 væri til skamms tíma og Þórarinn sagði að búast mætti við hagvexti strax á næsta ári.  Ásgeir tók undir þetta og sagði að samdrátturinn núna væri í raun tilfærsla á neyslu. „Samdrátturinn núna mun koma fram í auknum efnahagsbata þegar á næsta ári," sagði Ásgeir. 

Ekki þörf á að setja þak á verðtryggingu

Á fundinum var spurt hvort Seðlabankinn sæi ástæðu til þess að setja þak á verðtryggingu. Ásgeir sagði engin efni vera til þess. Í fyrsta lagi sé ekki búist við verðbólgu og hins vegar hafi verið ráðist í aðgerðir til að halda vöxtum lágum. Ásgeir sagði að gengi íslensku krónunnar hefði ekki sigið mikið. Það heðfi sigið um 10 prósent frá áramótum og gjaldeyrismarkaðurinn hafi verið í jafnvægi. Tíu prósenta gengissig myndi hjálpa okkur að komast út úr efnahagsþrengingunum. 

Telja aðgerðir ríkisins vera rétt skref

Einnig var spurt hvaða álit Seðlabankinn hefði á aðgerðum sem ríkissjóður kynnti um helgina og hvort þær væru nægjanlegar. Ríkisstjórnin metur umfang aðgerðanna á 230 milljarða króna. „Við teljum efnahagsaðgerðir ríkisins vera rétt svar við þeim aðstæðum sem nú blasa við. Við álítum að þetta séu rétt viðbrögð. Hvað sé nóg og ekki nóg er erfiðara að spá fyrir um. En okkur líst annars vel á þessar aðgerðir," sagði Ásgeir. Þórarinn bætti því við að sviðsmyndirnar sem hann kynnti tækju ekki mið af aðgerðum ríkisins, en það myndi efnahagsspá gera. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi