Ásakar landsliðsþjálfara um ósæmilega hegðun

Mynd: RÚV / RÚV

Ásakar landsliðsþjálfara um ósæmilega hegðun

16.08.2018 - 17:36
Þóra Björg Helgadóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, var á meðal framsögufólks á alþjóðlegri ráðstefnu um jafnrétti í íþróttum í dag. Hún deildi þar sögu af slæmri aðstöðu kvennalandsliðsins og segir fyrrverandi þjálfara liðsins hafa verið ölvaðan í landsliðsverkefni og boðið leikmönnum upp á herbergi til sín.

Þekkti ekki nöfn leikmanna og bauð þeim upp á herbergi

Þóra Björg Helgadóttir sem lék á árunum 1998 til 2014 108 A-landsleiki sem markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta var meðal framsögufólks á ráðstefnunni í dag, en það er Háskólinn í Reykjavík stendur fyrir henni.

Þóra deildi meðal annars upplifun sinni af því þegar KSÍ réð til starfa nýjan landsliðsþjálfara fyrir hátt í 20 árum síðan. Sá hafði fullauðveldar æfingar fyrir landsliðskonurnar, æft var á lélegum æfingavöllum og fenginn var 13 ára strákur með engan íþróttabakgrunn til að vera með á æfingum.

Þjálfarinn þekkti auk þess ekki nöfn allra leikmanna og vissi ekki hvaða stöður sumir spiluðu. Þá segir Þóra að þjálfarinn hafi í einni keppnisferð verið drukkinn og reynt að fá leikmenn með sér inn á hótelherbergið sitt. Í kjölfarið stóðu leikmenn loks upp og kvörtuðu við stjórn KSÍ, en mættu þar engum skilningi.

„Á endanum snerist þetta um ekki næga virðingu fyrir því sem við vorum að gera, frá sambandinu og ráðningu í kjölfar þess þar sem að leikmenn brugðust við og skrifuðu undir lista og viðbrögðin við því og kannski alvarleg viðbrögð og viðurlög fyrir ákveðna leikmenn og dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina,“ sagði Þóra um vinnubrögð KSÍ í málinu.

Vesen að vera með þennan kvennabolta

Þóra segir það hafa virst sem svo að KSÍ hafi á þessum árum sinnt kvennaknattspyrnunni einfaldlega vegna þess að sambandið þurfti þess. Lítill sem enginn metnaður hafi verið lagður í kvennalandsliðið.

„Þetta var óttalegt vesen, að vera með þennan kvennabolta. Þeir urðu svolítið að gera þetta fyrir almenning. Það var enginn gríðarlegur metnaður í þessu en sjálfsögðu voru starfsmenn innan sambandsins sem brunnu fyrir þetta, eins og Klara Bjartmarz. En í heildina, hvað varðar samskiptin við sambandið og hvað það skaffaði inn í þennan kvennabolta, var það gert með hangandi hendi,“ segir Þóra.

Allt á réttri leið

Þóra segir þó hlutina vera að mjakast í rétta átt og staðan sé önnur í dag þrátt fyrir að staða landsliðanna sé langt í frá jöfn. Hún tekur sem dæmi jafnar bónusgreiðslur til landsliðsmanna, bæði karla og kvenna, og undirbúning KSÍ fyrir Evrópumót kvenna í knattspyrnu síðasta sumar.

„Þetta er náttúrulega langt frá því að vera orðið jafnt en mér finnst hafa orðið virkilega jákvæð breyting til dæmis hjá Knattspyrnusambandinu undir nýrri stjórn og hafa tekið risastór skref, það var ekki einu sinni að taka lítil skref með því að jafna bónusana og undirbúningurinn fyrir EM, þetta voru risa skref. Kannski núna í fyrsta skipti hef ég virkilega trú á því að núna muni hlutirnir breytast hægt og bítandi án þess að einhver þurfi að berjast svona mikið fyrir þeim, heldur bara út af því að það er rétt,“ sagði Þóra að lokum.

Sjá má frétt RÚV um málið í spilaranum hér að ofan.