Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Arkitektinn Cesar Pelli látinn

20.07.2019 - 04:49
Mynd með færslu
Cesar Pelli og Petronas-turnarnir. Mynd: RÚV - Wikipedia Commons
Argentíski arkitektinn Cesar Pelli, sem þekktastur er fyrir byggingar á borð við Petronas-turnana í Malasíu og World Financial Center í New York, lést í gær 92 ára að aldri. Hann hlaut fjölda verðlauna á löngum ferli og var talinn einn merkasti arkitekt heims.

Pelli útskrifaðist úr námi við háskólann í Tucuman í Argentínu árið 1952 og fór þaðan til Bandaríkjanna til frekara náms. Hann var deildarforseti arkitektúrdeildar Yale-háskóla frá 1977 til 1984 og hlaut meðal annars gullverðlaun bandarísku arkitektúrsstofnunarinnar.

Frægustu byggingar hans eru Petronas-turnarnir tveir í Kúala Lúmpúr, höfuðborg Malasíu. Þeir eru 452 metrar að hæð og lauk byggingu þeirra árið 1998. Þeir voru hæstu byggingar heims til ársins 2004 er Taipei 101 turninn var byggður.

Hann teiknaði einnig alþjóðlegu viðskiptamiðstöðina í Hong Kong og viðbætur við nútímalistasafn New York-borgar, byggingar í Abú Dabí, Charlotte, London, Washington DC og víðar.

World Financial Center, bygging sem hann hannaði í miðborg New York, skemmdist mikið í hryðjuverkaárásunum þar 11. september 2001. Síðasta byggingin sem Pelli hannaði var Salesforce-umferðarmiðstöðin í San Francisco.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia Commons
World Financial Center.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV