Arkitektar sem rannsaka stríðsglæpi

Mynd: Forensic Architecture / Forensic Architecture

Arkitektar sem rannsaka stríðsglæpi

19.05.2018 - 16:30

Höfundar

Meðal þeirra sem tilnefndir voru til hinna þekktu bresku Turner-myndlistarverðlauna í lok apríl var hin einstaka rannsóknarmiðstöð Forensic Architecture. Líkt og þegar læknar og réttarmeinafræðingar taka þátt í rannsókn glæpa með því að leita að vísbendingum á líkum eða löskuðum líkömum stundar Forensic Architecture réttar-arkitektúr og kynnir niðurstöður sínar ýmist fyrir dómstólum eða í listasöfnum.

Miðstöðin nýtir sér þekkingu og færni arkitekta til að komast nær sannleikanum í málum sem varða mannréttindabrot og ofríki hinna ýmsu yfirvalda – sprengjuárásir á spítala á Sýrlandi, drónaárásir í Pakistan, ólöglegar aftökur í Mexíkó eða náttúruvá í Suðaustur-Asíu. Teymið notar teikningar, fréttamyndir, snjallsímamyndbönd og frásagnir vitna sem sönnunargögn, rannsakar þau og greinir með hjálp þrívíddarlíkana og ýmissa greiningartækja arkitektúrs.

Átök í hinu byggða umhverfi

„Forensic arcitecture er þverfagleg stofnun við Goldsmiths-háskóla sem inniheldur arkitekta, listamenn, rannsóknarblaðamenn, kvikmyndagerðarmenn. Stundum höfum við sjálf frumkvæði að rannsóknum en oft koma til okkar hópar baráttuhópar fyrir borgararéttindum, hjálparstofnanir og biðja okkur um að rannsaka tiltekin mál,” segir arkitektinn Stefán Laxness, einn meðlimur Forensic Architecture.

En af hverju er arkitektúr vel til þess fallinn að koma að rannsókn slíkra mála?

„Flest átök í dag eiga sér stað í mannbyggðu umhverfi og yfirleitt í einhvers konar borgarlandslagi. Arkitektar kunna að skoða, greina, skilja og mæla borgarlandslagið, skilja tengsl milli byggingarefna og hönnunar húsa, hvernig smáatriði tengjast skipulagi byggingar eða borgarskipulaginu í heild sinni. Allt þetta tungumál sem er notað til að skilja hið byggða umhverfi nýtist við rannsóknirnar,” segir Stefán.

Frá því að miðstöðinni var komið á fót árið 2011 hefur hróður hennar aukist og sífellt fleiri mannréttindasamtök og baráttuhópar falast eftir samstarfi við teymið. Uppgötvanir og niðurstöður stofnunarinnar hafa svo verið nýttar eða kynntar á mismunandi vettvangi. Nokkrar af rannsóknum miðstöðvarinnar hafa til að mynda verið notaðar frammi fyrir alþjóðlegum eða landsdómsstólum og sannleiksnefndum. En tilgangurinn er ekki alltaf lagalegur heldur felst hann oft í því að vekja upp nýjar spurningar um málin eða vekja athygli og umræðu.

Kortleggja ofbeldi og rangupplýsingar

,,Við förum yfirleitt þá leið að gera niðurstöðurnar strax aðgengilegar almenningi frekar en að kynna þær fyrir dómstólum. Þannig vonumst við til að geta tekið þátt í þeim umræðum sem eru að eiga sér stað. Þegar við rannsökum loftárásir í Sýrlandi búumst við ekki við því að það muni binda endi á ofbeldið, en við leggjum niðurstöðurnar fram til þess að hafa áhrif á umræðuna. Þannig notumst oft við hugtakið gagn-réttarfræði (e. counter-forensics), en það er sú hugmyndin að borgararnir geti, með frekar einfaldan verkfærakassa, beint sjónum sínum til baka að stjórnvöldum, þeir geti deilt upplýsingum sín á milli og varpað ljósi á ofbeldi og mannréttindabrot sem stjórnvöld standa fyrir bara.”

Eitt slíkt verkefni sem Stefán hefur tekið þátt í er Ayotzinapa-platform þar sem unnið var út frá hvarfi 43 nemenda í bænum Iguala í Mexíkó, sem sáust síðast fara upp í ómerktan lögreglubíl. Hið gríðarlega mikla magn upplýsinga og rangupplýsinga var flokkað og sett upp í þrívíddarlíkan til að betur væri hægt að gera sér grein fyrir atburðarásinni. Ekki aðeins þeirri atburðarás sem leiddi til hvarfs nemendanna heldur einnig hvernig yfirvöld reyndu augljóslega meðvitað að hylma yfir atburðinn með ítrekuðum röngum og misvísandi upplýsingum.

Listarýmið sem samræðuvettvangur

Einn sá vettvangur sem hefur nýst stofnuninni til að gera þetta er rými listarinnar, þannig hefur stofnunin sýnt afrakstur rannsókna sinna á mörgum af þekktustu listasöfnum heims, til að mynda ICA í London og MACBA í Barcelona. Á hinni mikilvægu myndlistarhátíð Documenta sem haldin var í Kassel í Þýskalandi fyrra kynnti Forensic Architecture svo rannsókn sína á því hvort þýskur leynilögreglumaður hafi - þvert á það sem hann sjálfur sagði - orðið vitni að morði nýnasísku hryðjuverkasamtakanna NSU á ungum starfsmanni netkaffihúss í borginni árið 2006. Í kjölfarið breyttist umræðan um málið, og þrýstingur á stjórnvöld um að taka upp málið að nýju jókst.

„Þegar markmiðið er að vekja athygli eða taka þátt í umræðu sem stendur yfir reynum við að setja efnið beint út á internetið, samfélagsmiðla eða annan opinn vettvang þar sem hægt sé að deila efni. En svo hefur listarýmið birst sem nýr mögulegur samræðuvettvangur þar sem hægt er að leggja fram sönnunargögn á stað þar sem fólk getur skoðað og rætt um þau,” segir Stefán. „Rými listarinnar snýst ekki bara um þá einföldu ánægju að njóta fallegrar listar, heldur geti listin haft samfélagslegt og pólitískt gildi. Þegar við sýnum í listasöfnum sýnum við ekki bara rannsóknina úr öllum tengslum, heldur reynum að gefa fólki allt samhengið. Þetta er ekki eitthvað sem maður getur bara kíkt á og notið heldur þurfa áhorfendur að melta það, gesturinn er hvattur til að velta fyrir sér þessum málum.”