Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Arcade Fire til Íslands í ágúst

epa04247032 Canadian indie rock band Arcade Fire performs on stage during the 45th annual Pinkpop music festival in Landgraaf, The Netherlands, 09 June 2014. The event ends on 09 June.  EPA/PAUL BERGEN
 Mynd: EPA

Arcade Fire til Íslands í ágúst

12.04.2018 - 08:45

Höfundar

Kanadíska indírokksveitin Arcade Fire er væntanleg hingað til lands í sumar og kemur fram á tónleikum í nýju Laugardalshöllinni þann 21. ágúst.

Þetta staðfestir tónleikahaldarinn Þorsteinn Stephensen við menningarvef RÚV. „Þetta er algjör happafengur fyrir landsmenn að fá bandið hingað núna á hápunkti ferilsins. Sannkallaður hvalreki á fjörur íslenskra tónlistarunnenda eins og Jakob Frímann myndi sjálfsagt segja,“ segir Þorsteinn léttur í bragði en miðasala á tónleikana hefst á þriðjudag í næstu viku. Önnur atriði hafa ekki verið negld niður en Þorsteinn segir ljóst að í það minnsta ein erlend sveit muni fylgja Arcade Fire til að sjá um upphitun. Arcade Fire var stofnuð í blábyrjun aldarinnar í Montreal, Kanada af bekkjarbræðrunum Win Butler, söngvara sveitarinnar, og Josh Deu. Sveitin er ekki síst þekkt fyrir að vera eins konar fjölskylduband þar sem Régine Chassagne, eiginkona Butler, og yngri bróðir hans, William Butler, eru einnig á meðal meðlima.

Þorsteinn segir að það hafi lengi staðið til hjá sér að fá hljómsveitina hingað til lands. „Ætli ég hafi ekki fyrst reynt að bóka Arcade Fire 2002 eða 2003 á Airwaves, þá vorum við í samskiptum,“ segir Þorsteinn en hann stýrir viðburðarfyrirtækinu Hr. Örlygi sem hefur flutt inn listamenn eins og Rammstein og Young Thug nýlega – auk þess að hafa sett á fót Iceland Airwaves hátíðina og rekið um árabil. „Þau urðu síðan bara svo fljótt of stórt band fyrir Airwaves,“ bætir hann við. Hann hafi þó haldið opinni línu við umboðsskrifstofur hljómsveitarinnar eftir þetta. „Þetta hefur í raun staðið til á hverju einasta sumri í mörg ár en er loksins að smella saman núna,“ segir Þorsteinn en sveitin mun klára Evróputúr sinn á Íslandi og dvelja hér í nokkra daga. „Þetta verður einstök upplifun. Ekki nóg með það að þetta sé mögnuð tónleikasveit þá eiga þau bara svo mörg góð lög og höfða til svo breiðs hóps,“ segir Þorsteinn en Kanadamennirnir styðjast við allt frá rafmagnsgítörum yfir í fiðlu, selló, franskt horn, hörpu, mandólín og hljóðgervla á tónleikum sínum. „Ég ætla að leyfa mér að spá að þetta verði einhverjir þeir bestu tónleikar sem nokkurn tímann hafa verið haldnir á Íslandi.“

Fyrsta smáskífan af nýjustu stóru plötu Arcade Fire.

Arcade Fire var stofnuð í Montreal árið 2001 en vakti fyrst athygli með sinni fyrstu breiðskífu, Funeral. Hún fékk nánast samhljóða lof gagnrýnanda og var valin besta plata ársins 2004 af indí-biblíunni Pitchfork, auk þess að lenda ofarlega á velflestum árslistum það ár. Hún kom eins og ferskur andblær í einsleita óháða rokksenu þess tíma; lagði áherslu á óforskammaða tilfinningasemi auk þess sem hráar strengja- og blástursútsetningar voru áberandi í hljóðheiminum. Í seinni tíð þykir Funeral með bestu plötum frá fyrsta áratug 21. aldarinnar og lendir iðulega ofarlega á blaði í slíkum samantektum.

Eftir að velgengni Funeral spurðist út varð sveitin iðin við tónleikahald og hitaði meðal annars upp fyrir risana í U2. Næsta breiðskífan Neon Bible kom út árið 2007 og skartaði ennþá stærri hljóm en áður, enda var hún tekin upp í kirkju. Með plötunni Suburbs innsigluðu Arcade Fire sig svo sem stórveldi í óháðri rokktónlist en hún fór rakleiðis á toppinn á bandaríska Billboard-listanum þar sem hún seldist í 156 þúsund eintökum fyrstu vikuna. Platan fór einnig á toppinn í Kanada og Bretlandi og var tilnefnd til þriggja Grammy-verðlauna og vann í flokknum „Plata ársins“. Á plötunni héldu þau áfram að þróa sína eigin tegund af tillfinningaþrungnu indírokki en víkkuðu einnig út hljóðheim sinn með rafpoppsmellinum „Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)“.

Sprawl II minnir óneitanlega á týndan Blondie-slagara.

Árið 2013 kom svo út platan Reflektor þar sem James Murphy úr LCD Soundsystem stýrði upptökum en þar hallaði sveitin sér meira að rafrænni danstónlist og reiddi sig minna á rafmagnsgítara heldur en á fyrri verkum. Þá léði sjálfur David Bowie þeim bakraddir í titillaginu. Nýjasta platan þeirra Everything Now kom svo út síðasta sumar en hið Abba-lega titillag hennar hefur ómað ótt og títt á öldum ljósvakans síðan. Arcade Fire hafa unnið til ótal verðlauna fyrir tónlista sína og spilað með listamönnum á borð við David Bowie, U2, James Murphy, France Gall og David Byrne, auk þess að vinna með kvikmyndagerðamönnum eins og Spike Jonze, Anton Corbjin og Terry Gilliam.

Tengdar fréttir

Reflektor

Erlent

Arcade Fire styrkir Haíti

Erlent

Arcade Fire með bestu plötuna