
Árborg tekur við fimm sýrlenskum flóttamönnum
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu. Fólkið kom hingað til lands í maí síðastliðnum, ásamt 42 öðrum flóttamönnum. Meginhluti hópsins settist að á Hvammstanga og Blönduósi, en Árborg tók á móti fimm manna fjölskyldu. Þetta er í annað sinn sem Árborg tekur á móti flóttafólki í samstarfi við stjórnvöld og er því mikil reynsla og þekking til staðar í sveitarfélaginu, að því fram kemur í tilkynningunni. Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, deildarstjóri stuðnings- og stoðþjónustu hjá Árborg, segir að móttaka fólksins hafi gengið vel, en fjölskyldan hefur tengingu við einstakling sem kom til landsins sem flóttamaður árið 2017 og settist að í Árborg.
Mikil aukning hefur orðið á undanförnum árum í móttöku íslenskra stjórnvalda á flóttafólki, í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sveitarfélög og Rauða krossinn. Í ár verður tekið á móti 75 einstaklingum, meðal annars frá Sýrlandi og víðs vegar í Afríku.
„Móttaka flóttafólks hér á landi hefur gengið vel og er um að ræða farsælt samstarf á milli sveitarfélaga, ríkis og Rauða krossins á Íslandi. Ég bind vonir við að svo verði áfram,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningunni.