Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áratugur sem einkennst hefur af vantrausti

27.12.2019 - 17:00
Mynd: Skjáskot / RÚV
Stjórnmálafræðiprófessor segir að þessi áratugur hafi einkennst af mjög miklu vantrausti. Algjör umpólun hafi orðið í íslenskum stjórnmálum sem hafi litast af því að menn séu að vinna sig út úr hruninu.

„Það má eiginlega segja að pólitíska krísa hafi orðið miklu meiri heldur en á efnahagssviðinu út úr hruninu. Við sjáum að stjórnmálaflokkarnir hafa átt í miklum erfiðleikum með að ná til að mynda fyrri styrk og trausti almennings í sinn garð. Þessi áratugur hefur einkennst af mjög miklu vantraust í garð stjórnmálalífsins í heild sinni. Þetta höfum við séð í því að ríkisstjórnir hafa átt erfitt með að lifa kjörtímabilin. Við höfum kosið óvanalega oft á þessum áratug. Það má kannski segja að á allra seinustu árum hafi komið svona ákveðin ró yfir á nýjan leik,“ segir Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst.

Fjórflokkurinn að missa yfirburðastöðu

Þennan áratug hafa fimm ríkisstjórnir setið við völd og það hefur verið kosið fjórum sinnum. Tvær ríkisstjórnir hafa ekki setið út kjörtímabilið.
Eiríkur segir að svo virðist sem fjórflokkurinn hafi misst yfirburðastöðu sína á þessum áratug. Hann hafi í gegnum tíðina getað treyst á samanlagt fylgi á bilinu 80-90% og skipst á að sitja við völd.

„Þetta er gjörbreytt. Núna eru átta flokkar inni á Alþingi sem er algjört met. Í síðustu könnun mældust níu flokkar inni á þingi. Enginn flokkur fer mikið yfir fimmtung atkvæða. Þetta er gríðarlega mikil breyting frá því sem var. Fjórflokkurinn má teljast heppinn að halda meirihluta miðað við aðra nýja flokka,“ segir Eiríkur.

Fleiri reiðubúnir að skipta um hest

Frá kosningunum 2009 hafa tuttugu framboð skotið upp kollinum en ekki hafa öll náð að bjóða fram til Alþingis. En er eitthvað sem einkennir nýju framboðin? Eiríkur segir að þau séu reyndar af nokkuð ólíkum toga. Í fyrsta lagi séu framboð sem spruttu upp úr hruninu og því vantrausti sem þá ríkti. Dæmi um það sé Borgarahreyfingin sem varð svo að Hreyfingunni, Píratar sem enn sitja á þingi og svipaða sögu megi segja um Flokk fólksins. Svo séu önnur dæmi um framboð af allt öðrum toga, til dæmis Bjarta framtíð sem kom og fór.

Önnur framboð tengjast klofningi úr öðrum flokkum. Hann nefnir Viðreisn, frjálslynt brot sem fór úr Sjálfstæðisflokknum meðal annars vegna ágreinings um alþjóðamál. Uppgjörið í Framsóknarflokknum hafi hins vegar verið meira af persónulegum ástæðum. Framboðin séu af ólíkum toga.

„En fjöldi þeirra samanlagt segir auðvitað þá sögu að það er miklu meiri ólga í íslenskum stjórnmálum eða var það alla vega lengst af þessum áratug heldur en við áttum að venjast áratugina á undan. Og það eru miklu fleiri kjósendur á þessum áratug sem hafa verið reiðubúnir til þess að skipta um hest heldur en áður var. Það er kannski ein stærsta breytingin sem hefur orðið í stjórnmálum landsins og reyndar almennt í nágrannalöndunum að fólk almennt samsamar sig ekki eins sterkt við tiltekinn stjórnmálaflokk eins og áður var,“ segir Eiríkur.

Nánar er rætt við Eirík í Speglinum.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV