Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áratugi tekur að ná trausti á bönkunum

29.09.2018 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Tíu ár eru í dag síðan fyrsti íslenski bankinn, Glitnir, var yfirtekinn að stórum hluta af ríkinu. Í hönd fóru erfiðustu dagar og mánuðir í efnahagslífi þjóðarinnar. Bankastjóri Íslandsbanka, sem vann hjá Glitni og tók við stjórn hans eftir fallið, segir að erfiðast sé að endurheimta traustið, það taki kynslóðir. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Davíð Oddsson seðlabankastjóri 27. sept. 2008.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Geir H. Haarde forsætisráðherra 28. sept. 2008.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Höfuðstöðvar Glitnis aðfararnótt 29. sept. 2008.

Óvenjulegir fundir

Helgina á undan 29. september voru nokkuð tíðir fundir í stjórnarráðinu. Allir seðlabankastjórarnir þrír voru á fundi með forsætisráðherra laugardaginn 27. september 2008 í stjórnarráðshúsinu. 

„Nei, það er ekki óvenjulegt, það gerist oftar en þið haldið nefnilega,“ sagði Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra.

Og daginn eftir, þann 28., í Arnarhváli sagði Geir: 

„Ja, ég myndi nú ekkert lesa neitt sérstakt í það.“

Um kvöldið var boðað til skyndifundar í Seðlabankanum og gengu menn þungir á brún af þeim fundi. Og um nóttina var fundað í Glitni. Í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, voru líka næturfundir. 
Ríkið eignaðist 3/4 hluta í Glitni 29. september. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lárus Welding bankastjóri Glitnis í Seðlabankanum að morgni 29. sept. 2008.

Áfall og sjokk

Birna Einarsdóttir var framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis þann 29. september.

Hvað kemur fyrst upp í hugann?

„Mikið áfall, sjokk og stór vandamál sem voru fram undan,“ segir Birna.

7. okt var bankinn alveg tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og skilanefnd skipuð yfir honum. Viku síðar, 15. október, var Birna skipuð bankastjóri Glitnis: 

„Ég er ekki viss um á þeim tímapunkti að ég hafi gert mér grein fyrir því hvað ég var að taka að mér. Verkefnið var risastórt og risavaxið og vandamálin í sjálfu sér stærri heldur en ég hafði búist við.“

Ástandið var ekkert venjulegt í útibúum bankanna; fjöldi viðskiptavina í óvissu og starfsfólkið líka.

„Náttúrulega flestir okkar viðskiptavinir voru með einhverja óvissa stöðu, sem við þurftum að vinna í og hjálpa. Og síðan náttúrulega starfsfólkið okkar, sem var líka óöruggt, hvað myndi gerast með þeirra starf og hvernig var framtíð bankans, hvernig hún myndi verða. Það var mikil óvissa og óöryggi og þess vegna var mikilvægt bara að taka utan um hópinn og halda áfram.“

Skemmdarverk voru unnin á heimilum ýmissa stjórnenda 2009, Birna var ein þeirra:

„Það var skelfileg reynsla en auðvitað verður maður að sýna því skilning að fólk er að mótmæla og sýna reiði sína. Það voru heilmikil mótmæli fyrir utan bankann og það fannst mér sjálfsagt, fólk mátti koma þangað og sýna reiði sína. En það verður að skilja á milli þarna, það er bankinn og síðan heimili fólks.“

Regluverkið er ekki nóg

Málaferlum vegna Glitnis er ekki enn lokið. Í vikunni var í fjórða sinn málflutningur í Aurum-málinu sem snýst um milljarðalánveitingar úr Glitni til að kaupa skartgripakeðjuna Aurum. 

Íslandsbanki hefur breyst mikið á tíu árum. Hann er kominn í nýjar höfuðstöðvar. Bankinn skilar eiganda sínum, ríkinu, hagnaði, 13 milljörðum á þessu ári. Og til stendur að selja hann en hvenær er óákveðið.

„Það er aukin skynsemi. Og auðvitað vitum við og viðskiptavinir okkar hvaðan við erum að koma. Fólk er að taka minni hluta að láni og það er meira eigið fé í þeim verkefnum sem við sjáum. Ég held að það sé svo mikilvægt tíu ár frá hruni. Það eru einungis 42% af starfsmönnum bankans sem voru hér fyrir tíu árum síðan. Við verðum svo sannarlega að rifja upp söguna en að sjálfsögðu halda áfram líka. Og muna hvaðan við komum og læra af því.“

Umgjörð um fjármálamarkaðinn er önnur en fyrir tíu árum, ríkari kröfur eru gerðar til bankanna og regluverkið er meira. En það er kannski ekki nóg. 

„Það sem ég lærði af þessu er að það að byggja upp traust eftir svona mikið áfall tekur lengri tíma heldur en ég hafði gert mér grein fyrir. Það tekur kynslóðir. Hvað áttu við? Það að byggja upp traust gagnvart fjármálastofnunum. Við héldum og áætluðum að við myndum vinna það til baka á kannski fimm til tíu árum. En við erum ekki komin á sama stað. Og maður lærir það og það tekur lengri tíma og það er langhlaup.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Útibú Íslandsbanka í Smáralind
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV