Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áratuga verkefni að snjóflóðaverja byggð

26.11.2017 - 19:09
Afstaða Íslendinga til snjóflóðahættu gerbreyttist eftir mannskæð snjóflóð Súðavík og Flateyri árið 1995 þegar samtals 34 fórust. Á vef Veðurstofu Íslands segir að slysin hafi opnað augu manna fyrir því að snjóflóðahætta var langt umfram það sem væri hægt að sætta sig við í nokkrum bæjum og þorpum á landinu.

Unnið er að því að verja þéttbýlisstaði þar sem er snjóflóðahætta. Starfsmaður Ofanflóðasjóðs segir að vinna við gerð ofanflóðavarna sé um það bil hálfnuð. Það skýrist þó ekki fyrr en frumathugun er lokið á öllum stöðum. Með frumathugun er markmiðið að leiða í ljós þörf, umfang og forsendur verkefnis. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að varanlegar varnir yrðu tilbúnar árið 2010 var frestað til ársins 2020.

Snjóflóð hafa tekið mörg líf

Á 20. öld fórust 166 í snjóflóðum. Af þeim voru 107 í byggð, á atvinnusvæðum eða innan þéttbýlis en 59 utan þéttbýlis. Samtals er getið 700 dauðsfalla af völdum snjóflóða í heimildum frá því að byggð hófst og má gera ráð fyrir að nokkur hundruð manns til viðbótar hafi farist í snjóflóðum hér á landi.

Mannskæðasta snjóflóðið, sem vitað er um, féll á Seyðisfirði 18. janúar 1885, þá létust 24. Flóðið féll úr Bjólfi árla öskudagmorguns. Yfir 90 manns lentu í flóðinu sem féll á 15 íbúðarhús. Fjölmargt fólk slasaðist.

18. febrúar 1910 fórust 20 manns þegar snjóflóð féll á byggðina í Hnífsdal. Snjóhengja brast í Búðarhyrnu og féll niður Búðargil. Snjóflóðið breiddi úr sér þegar það kom út úr gilinu og sópaði burt öllu sem á vegi þess varð og færði jafnvel hús út á sjó. Á milli 30 og 40 manns lentu í snjóflóðinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Timarit.is

Fjöldi snjóflóða féll árið 1919 og ollu miklu manntjóni. Til dæmis týndu átján manns lífi í fjórum snjóflóðum í Hvanneyrarhreppi í nágrenni Siglufjarðar.

Tólf manns fórust í snjóflóðum í Neskaupstað 20. desember 1974. Innra flóðið féll úr svokölluðum Bræðslugjám ofan við bæinn og það síðara utar, nær byggð í bænum, úr Miðstrandaskarði. Flóðin féllu rétt eftir klukkan tvö eftir hádegi með 20 mínútna millibili. Í því fyrra fórust fimm og í því síðara sjö.

Mynd með færslu
 Mynd: Minnisvarði í Norðfirði - Mynd: Beate Stormo
Minnisvarði í Norðfirði um þá sem létust

Fernt fórst í tveimur flóðum 22. janúar 1983 á Patreksfirði. Fyrra flóðið var um 65 metra breitt þar sem það lenti á byggðinni. Flóðið kom úr Geirseyrargili og um tveimur tímum síðar fylgdi annað flóð úr Litladal og rann eftir farvegi Litladalsár allt til sjávar. Á fjórða tug manna misstu heimili sín.

Á seinni hluta 20. aldar fórst einnig fólk á bæjunum Grund í Reykhólahreppi 18. janúar 1995 og í snjóflóði í Tungudal í Skutulsfirði árið 1994.

Fjórtán manns, þar af átta börn, fórust í snjóflóði sem féll á Súðavík 16. janúar 1995. Tólf sluppu lifandi úr flóðinu. Tuttugu og sex voru í húsunum sem snjóflóðið féll á.

Umfjöllun fréttastofu þegar 20 ár voru liðin frá snjóflóðinu í Súðavík

Tuttugu manns fórust í snjóflóði sem féll á Flateyri 26. október 1995. Snjóflóðið féll úr Skollahvilft og skall á 17 húsum. 45 manns lentu í flóðinu, 21 komst út af eigin rammleik og fjórum var bjargað. Nýlega voru gerðir útvarpsþættir í tengslum við leiksýninguna, Flóð, þar sem snjóflóðið var skoðað frá mörgum hliðum. Hér má nálgast þættina.

 

Til viðbótar við manntjón hafa snjóflóð valdið miklu fjárhagslegu tjóni hér á landi. Beint fjárhagslegt tjón vegna snjóflóða frá árinu 1974 til ársins 2000 hefur verið metið yfir 3,3 milljarðar króna.

Breytingar eftir mikinn mannskaða

Þrátt fyrir mannskæð snjóflóð í Neskaupstað 1974 varð ekki grundvallarbreyting á ofanflóðahættumati fyrr en eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri. Í heimildarmyndinni Háski - Fjöllin rumska, sem fjallar um snjóflóðin í Neskaupstað og var nýlega frumsýnd, segir að þöggun hafi ríkt um atburðina. „Og þegar við birtum 1979 snjóflóðakortin í Egilsbúð, þegar við kynntum aðalskipulagið þá fékk ég miklar skammir,“ segir Logi Kristjánsson, fyrrverandi bæjarstjóri í myndinni.

„Það var reynt að þagga þetta niður. Það var reynt að þagga umræðuna niður vegna þess að menn vildu ekki fæla fólk frá því að flytja hingað eða flytja í burt,“ segir Árni Þorsteinsson í myndinni.

Fólk sem lenti í snjóflóðinu í Neskaupstað fékk ekki áfallahjálp fyrr en 20 árum síðar, eftir snjóflóðin fyrir vestan.

Byggð á snjóflóðahættusvæðum

Þorpin á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum stækkuðu mikið á tímabilinu 1930-1980 og húsum fjölgaði á snjóflóðahættusvæðum. Þá var veðurfar tiltölulega milt um miðja öldina, 1925-1965, og því hafa sennilega færri snjóðfóð fallið á þessum árum en um aldamótin 1900. Veðurfar versnaði þó eftir 1965 og tíðni snjóflóða jókst. Sem liður í því endurskipuleggja ofanflóðamál eftir mannskaðaflóðin í Neskaupstað árið 1974 var Ofanflóðasjóður stofnaður árið 1985 og styrktur með nýjum tekjustofnum til að standa straum af kostnaði við varnarráðstafnir vegna ofanflóða, hættumat og tengdar rannsóknir. Í snjóflóðunum á Flateyri og í Súðavík voru hins vegar flestir staddir í húsum sem voru utan þess hættumats sem þá var í gildi. Snjóflóðin urðu til þess að hættumat var endurskoðað og fyrra mat var fellt úr gildi. Árið 1997 voru sett ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Ný lög og ofanflóðahættumat

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að eftir snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík hafi byrjað umræða um hvað teldist ásættanleg snjóflóðahætta í heimahúsi. „Og á þessum tíma var tekin ákvörðun um að snjóflóðahætta í heimahúsum ætti ekki að vera einn af megináhættuþáttum í lífum fólks,“ segir Harpa. Hún segir að fólk sætti sig við frekar litla áhættu. „Ef fólk býr í húsi á stað þar sem snjóflóð kemur að meðaltali á tvö hundruð ára fresti eru meiri líkur á því að það deyi í snjóflóðum en að það, til dæmis, deyi í bílslysum eða algengum sjúkdómum. Þannig að þótt að atburðirnir séu tiltölulega sjaldgæfir þá er það samt óásættanleg áhætta á þessum stað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofu Íslands

Rýmingar er hægt að nota til þess að draga að vissu marki úr slysahættu af völdum snjóflóða en þær eru tímabundnar. Því er litið svo á að lausn vandans felist í byggingu fullnægjandi snjóflóðavarna og breytingum á skipulagi og landnýtingu.

Árið 1997 voru samþykkt lög á Alþingi um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þar sem segir að sveitarfélög skuli meta hættu á ofanflóðum í byggð þar sem ofanflóð hafa fallið, fallið nálægt henni eða talin er hætta á að snjóflóð falli. „Eftir þetta var þróuð ný aðferð til að þróa hættumat og síðan þá hefur verið gert hættumat fyrir alla þéttbýlisstaði á Íslandi þar sem ofanflóðahætta er talin vera umtalsverð,“ segir Harpa. Árið 2000 tóku gildi ný lagaákvæði um að hættumatsnefndir í viðkomandi sveitarfélögum skyldu gera tillögur að hættumati í samráði við sveitarstjórnir og Veðurstofu Íslands. Með hættumati er metin sú hætta sem lífi fólks er búin vegna ofanflóða í byggð. Reglurnar miðast við þéttbýli. 

Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa að minnsta kosti 50 manns, fjöldi húsa að lágmarki þrjú á hvern hektara og fjarlægð á milli þeirra að jafnaði ekki yfir 200 metrar.

Hættumatskort sýna hættusvæði. Svæði brekkumegin við hættumatslínu eru merkt bókstöfum A, B og C, eftir vaxandi áhættu. A sem minnsta áhættan og C mesta.

Hættumatskort fyrir Siglufjörð

„Svo er það þannig að þar sem eru C-svæði, sem sagt hættulegustu svæðin, rauð svæði, þar ber viðkomandi sveitarstjórn skylda til að verja á varanlegan hátt. Þar er ekki talið nægjanlegt til framtíðar að beita bara vöktun og rýmingum sem úrræði heldur verður að verja á varanlegan hátt þau svæði,“ segir Harpa, hjá Veðurstofu Íslands. Varanlegar varnir geta verið snjóflóðamannvirki eða uppkaup á íbúðarhúsnæði. Fyrir hættusvæði A og B er heimilt að tryggja öryggi fólks með eftirliti og rýmingu.

Unnið að því að verja byggðir landsins

Ofanflóðanefnd hóf störf 1. janúar 1996 sem liður í breytingum á stjórnsýslu ofanflóðavarna eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri 1995. Ofanflóðanefnd starfar í umboði umhverfisráðherra og er hlutverk hennar að fjalla um og taka afstöðu til tillagna sveitarstjórnar um varnarvirki fyrir hættusvæði og um kaup eða flutning húseigna sem og ráðstafa fé úr Ofanflóðasjóði. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn og í henni eiga sæti þrír fulltrúar; formaður er skipaður án tilnefningar, einn er tilnefndur af innanríkisráðherra og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í sveitarfélögum, þar sem hefur verið metin hætta á ofanflóðum, gera sveitarstjórnir tillögur að varnarvirkjum að fengnu samþykki Ofanflóðanefndar. Sveitarstjórn skal jafnframt annast framkvæmdir við varnarvirki í samræmi við Ofanflóðanefnd og bera ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja. Kallað hefur verið eftir meiri umræðu um útfærslu varnanna, til að mynda í Neskaupstað og á Ísafirði. Á Ísafirði gagnrýndi Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri hversu erfitt það væri að vera framkvæmdaraðili að snjóflóðavörnunum án þess að hafa útfærsluvaldið, það er hvernig vörnunum skuli háttað. Það sagði hann í ljósi umdeildrar útfærslu á snjóflóðavörnum Kubba á Ísafirði. Svokallaður þjónustuvegur hefur verið sérstaklega umdeildur í hlíðum Kubba og hvernig hann sker hlíðar fjallsins.

Ofanflóðasjóður og reglur um hann

Ofanflóðasjóður er í vörslu umhverfisráðuneytisins og tekjur hans byggjast á því að árlegt gjald er lagt á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti.

Ofanflóðasjóði er ætlað að greiða kostnað við rekstur sjóðsins og Ofanflóðanefndar svo og kostnað við varnir gegn ofanflóðum; hættumat og hönnun varnarvirkja. Þá eru greidd 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir varnarvirkja, 60% við viðhald þeirra og 90% af kostnaði við kaup eða eignarnám á húseignum eða lóðum. Þá getur Ofanflóðasjóður veitt lán fyrir hlut sveitarfélaga.

Samkvæmt ársreikningi Ofanflóðasjóðs ársins 2016 er sjóðstaðan um áramót að frádreginni viðskiptastöðu við ríkissjóð 13,9 milljarðar. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar gagnrýnt að Ofanflóðasjóður liggi á milljörðum króna. Ein skýring á því af hverju hægt var á framkvæmdum við ofanflóðavarnir var sögð vera almenn þensla í samfélaginu, það kom fram í skýrslu Ofanflóðanefndar frá árinu 2009. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, hefur hins vegar bent á að sjóðurinn verji fé sínu ekki í önnur verk ríkisins en í ofanflóðavarnir.

Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu, sem hefur starfað við málaflokkinn um margra ára skeið segir að það sé Alþingi sem ákvarðar með fjárlögum hversu miklu fé skuli ráðstafa í ofanflóðavarnir ár hvert. Hann segir Ofanflóðanefnd vissulega koma með tillögu um framkvæmdir en að ekki sé ráðist í verkefni nema að fjármagn sé tryggt til að ljúka verkefninu með sambærilegum fjárheimildum næstu ár. 

Hafsteinn telur að um 18 milljörðum hafi nú þegar verið varið í framkvæmdir og líklegt að það sem eftir er sé af svipaðri stærðargráðu.

Framganga varnarvirkja

Hættumat er í gildi á 23 þéttbýlisstöðum víðsvegar um landið. Flestir á Vestfjörðum. Þótt hættumat sé í gildi á 24 stöðum hefur ekki þurft að ráðast í framkvæmdir á varanlegum vörnum á öllum þeim stöðum þar sem byggð hefur ekki fallið innan svokallað C-hættusvæðis. Á A- og B hættusvæðum er öryggi fólks tryggt með vöktun og rýmingum. Sauðárkrókur er dæmi um slíkan stað. Hins vegar þá þarf að ráðast í varnaraðgerðir á 15 stöðum af þessum 24 sem eru mislangt á veg komnar. Hafsteinn segir að ekki sé ljóst hver kostnaðurinn verður við þær framkvæmdir sem eftir eru: „Áður en frumathugun lýkur vitum við ekki hvaða varnarkosti við erum að tala um og hvað þær koma til með að kosta.“ Eftir að frumathugun allra þéttbýlisstaðanna er lokið verði til betri hugmynd um heildarkostnað. Hafsteinn telur að eftir eitt til tvö ár verði frumathugunarvinnunni lokið.

Staðir með gildandi hættumati á myndina vantar Hnífsdal

Í Ólafsvík á Snæfellsnesi, á Flateyri, í Bolungarvík, á Ólafsfirði og á Fáskrúðsfirði er framkvæmdum lokið þótt enn eigi eftir að ljúka frágangi á Fáskrúðsfirði. Í Súðavík var byggðin flutt, íbúðarhús keypt upp. Á Tálknafirði er frumathugun lokið og þar þarf að verja nokkur hús en enn á eftir að ljúka nokkrum stórum verkefnum.

Snjóflóðahætta á nokkrum stöðum á Patreksfirði

Hættumat var kynnt á Patreksfirði árið 2003. Ljóst er að nokkrir hlutar byggðarinnar eru á hættusvæði C sem ber að verja. Þvergarði við Klif ofan skóla og sjúkrahúss var lokið árið 2015 og jafnframt við Litladalsá. Nú er unnið að tveimur stórum verkefnum til að ljúka vörnum á Patreksfirði, ofanflóðavörnum í Stekkagili, eða Geirseyrargili, þar sem unnið er að frumathugun og fyrir ofan vestasta hluta þorpsins, verkefni sem er kennt við Urðir, Hóla og Mýrar. Þar er frumathugun lokið og unnið að mati á umhverfisáhrifum. Ekki er langt síðan snjóflóð féll á svæði Urða, Hóla og Mýra.

Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV

Í byrjun sumars voru settar upp snjóflóðagrindur og vindkljúfar uppi á Brellum, fjallinu ofan Patreksfjarðar, sem tilraunaverkefni sem á að styðja við fyrirhugaðar varnir ofan Urða og Mýra.

Skortir byggingaland á Bíldudal

Á Bíldudal er verið að endurskoða frumathugun þess verkefnis sem er það eina sem er eftir í þorpinu. Framkvæmdum í Búðargili lauk 2010. Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur í fólksfjöldaþróun á Bíldudal með tilkomu laxeldis og kalkþörungaverksmiðju í bænum og því glímir sveitarfélagið við húsnæðisskort í þorpinu. Ekki er hægt að byggja á góðum lóðum, þar sem gatnagerðarframkvæmdum er lokið, á meðan ekki er búið að fullverja byggðina. 

Hús keypt upp í Hnífsdal

Í Hnífsdal var hluti húsa keyptur upp en nýlega hófst frumathugun vegna ofanflóðavarna sem til stendur að reisa, það er það sem eftir stendur í Hnífsdal.

Verið að ljúka framkvæmdum á Ísafirði

Á Ísafirði er verið að ljúka framkvæmdum neðan Gleiðarhjalla en unnið er að uppsetningu upptakastoðvirkja í hlíðum Kubba, ofan Holtahverfis á Ísafirði. Framkvæmdirnar hafa verið umdeildar, ekki hvort ætti að verja heldur hvernig. Stálgrindunum, upptakastoðvirkjum, er ætlað að koma í veg fyrir að snjór fari af stað, haldi snjóþekjunni á upptakasvæðum snjóflóða.

Á Siglufirði er unnið að því að setja upp snjóflóðagrindur eins og í hlíðum Kubba á Ísafirði. Framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Siglufirði hófust fyrst árið 1998 þegar reistir voru varnargarðar rétt ofan við bæinn sem eiga að stöðva flóð eða leiða þau framhjá byggðinni. Fyrstu upptakastoðvirkin voru sett upp árið 2003. Áfanginn sem nú er unnið að er sá þriðji af fjórum. Hafsteinn segir að ljúka eigi þessu verkefni á næsta ári en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvenær eigi að hefja vinnu við næsta áfanga, hugmyndir séu um að geyma hluta af honum - fylgjast betur svæðinu áður en ráðist verður í lokahlutann. Þetta ráðist jafnframt af því hvenær fjármagn verður tryggt. Vegna takmarkaðra fjárheimilda sé æskilegt að horfa einnig til annarra brýnna verkefna.

Stór verkefni eftir á Seyðisfirði

Á árunum 2002-2004 voru reistar snjóflóðavarnir á Brún í Bjólfi við Seyðisfjörð en stóra snjóflóðið árið 1882 féll úr Bjólfi. Hafsteinn segir að nú sé svo unnið að frumathugun fyrir snjóflóðavarnir í norðanverðum firðinum og í framhaldi af því frumathugun fyrir varnir í sunnanverðum firðinum, kenndum við Þjófa og Botna.

Beðið eftir að framkvæmdum ljúki í Neskaupstað

Í Neskaupstað er búið að setja upp varnir á tveimur giljasvæðum, Drangagilssvæði og Tröllagilssvæði. Þá er umhverfismati lokið fyrir Urðarbotna og hönnunarferli farið af stað. Einnig er lokið umhverfismatsferli fyrir Nes- og Bakkagil en Hafsteinn Pálsson segir það verkefni vera í bið. Ekki verður ráðist í hönnun þess fyrr en hönnun varna undir Urðarbotnum er lokið. Verkefnin séu stór og því ákveðið að taka eitt fyrir í einu. Reynt sé að ljúka undirbúningsferlinu en raða svo framkvæmdum á skipulagðan hátt. Við frumsýningu á myndinni Háska, um snjóflóðin í Neskaupstað, kom fram að beðið er eftir að framkvæmdum við ofanflóðavarnir ljúki í bænum.

Þarf að laga varnir sem fóru í flóði

Á Eskifirði miða varnirnar helst að því að verja í árfarvegum. Búið er að reisa varnir við Bleiksá og Hlíðarendaá. Hafsteinn segir þó að ráðast þurfi í endurbætur á vörnunum í Hlíðarendaá eftir að flóð kom þar í sumar. Þá sé vinnu í Ljósá að mestu lokið en enn á eftir að koma fyrir vörnum í Grjótá og Lambeyrará, Grjótá bíði þar til framkvæmdum við Lambeyrará er lokið.

Snjóflóðavarnir gegna hlutverki sínu

Þótt ekki sé búið að fullverja alla þéttbýlisstaði er ljóst að þær snjóflóðavarnir sem risið hafa standa sína plikt. Harpa segir að til dæmis hafi mörg flóð fallið á varnargarðana ofan við Flateyri, þó ekki jafnstór og það sem féll í október 1995. Á ofanflóðakortasjá Veðurstofunnar, má skoða þekkta snjóflóðasögu landsins. Þar má til dæmis greina útlínur snjóflóða sem hafa lent á varnargörðum ofan við Flateyri.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Vinstri mynd: Snjóflóðaútlínur eftir varnargarð. Hægri: Fyrir varnargarð

Tekur yfir áratug að gera varnir

Rúm tuttugu ár liðu frá mannskæðu snjóflóðunum í Neskaupstað þar til grundvallarbreyting varð á ofanflóðahættumati í byggð og lög voru sett um að verja byggð fyrir snjóflóðum. Nú eru um tuttugu ár liðin frá því að lög vöru sett um snjóflóð og varnir gegn þeim og enn er langt í land með að byggðir landsins hafi verið varðar snjóflóðum. Hafsteinn áætlar að ferli við að setja upp snjóflóðavarnir geti hlaupið á áratug eða meira, það fari eftir umfangi framkvæmdarinnar. Hættumat geti tekið 1-2 ár og frumathugun 1-2 ár. Ef verkið þarf að fara í umhverfismat getur það tekið ár til viðbótar og hönnunarferlið um hálft ár. Þá geti framkvæmdin tekið frá einu og hálfu ári upp í fjögur ár, stærstu verkin jafnvel lengri tíma. Frágangsvinna geti svo tekið 2-4 ár og er frágangur, eða mótvægisaðgerðir, jafnan teygður yfir lengri tíma til að tíminn og umhverfið vinni með fráganginum.