Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Árásirnar í París - tímalína

14.11.2015 - 18:33
epa05025277 People place flowers and light candles in tribute for the victims of the 13 November Paris attacks near the Bataclan concert venue in Paris, France, 14 November 2015. More 140 people have been killed in a series of attacks in Paris on 13
 Mynd: EPA
Hryðjuverkaárásirnar í París í gærkvöld eru þær mannskæðustu í Evrópu í rúman áratug. 129 létust og um þrjúhundruð særðust, þar af minnst 80 lífshættulega. Sjö hryðjuverkamenn gerðu árás á sex stöðum, nánast samtímis. Þetta er það sem er vitað um atburðarásina núna.

Fimm árásir voru gerðar í miðborg Parísar, á fjölförnum stöðum sem ungt fólk sækir gjarnan um helgar. Sjötta árásin var við þjóðarleikvang Frakka.

Klukkan 20:20 að íslenskum tíma

Fyrstu árásirnar voru þrjár sjálfsmorðssprengjuárásir við íþróttaleikvanginn Stade de France, þar sem vináttuleikur fótboltalandsliðs Frakka og Þjóðverja fór fram. Áhorfendapallar voru þétt setnir, en hann tekur 81 þúsund gesti. 

Francois Hollande Frakklandsforseti var á leiknum. Eftir aðra sprengiuna fór hann í fylgd öryggisvarða af vellinum. Leikurinn hélt áfram og svo virðist sem áhorfendur og leikmenn hafi ekki vitað hvað hafði gerst fyrr en eftir að honum lauk, þó sprengingarnar hafi heyrst greinilega. Árásarmennirnir voru þeir einu sem létust í þessum þremur árásum.

Klukkan 20:25 að íslenskum tíma

Skotárás á veitingastaði og kaffihús í tíunda hverfi. Svo virðist sem árásarmaður vopnaður hríðskotabyssu hafi skotið á Le Carillon kaffihúsið og síðan snúið sér að veitingastaðnum Le Petit Cambodge hinum megin við götuna. Tólf manns létust í þessum árásum og fjölmargir særðust, þar á meðal frönsk eiginkona íslensks manns sem búsettur er í París, en hún var ásamt vinkonu sinni á Le Carillon. 

Klukkan 20:29 að íslenskum tíma

Maður vopnaður hríðskotabyssu skýtur á gesti pizzastaðarins La Casa Nostra pizzeria. Sjónarvottur segir minnst fimm hafa látist.

Klukkan 20:38 að íslenskum tíma

Tilkynnt um skotárás á bar í ellefta hverfi, La Belle Equipe. Tveir menn skutu á gesti sem sátu á veröndinni og fóru svo akandi á brott. Minnst nítján létust.

Klukkan 20:40 til 22:49 að íslenskum tíma

Mannskæðasta árásin var á tónleikastaðnum Bataclan, þar sem rokksveitin Eagles of Death Metal voru með tónleika. 1500 manns voru á tónleikunum. Vitni segja fjóra menn hafa komið inn í salinn og hafið skothríð á tónleikagesti. Einn þeirra lét skotin dynja yfir salinn af svölum. Minnst 82 létust. Árásarmennirnir héldu minnst hundrað manns í gíslingu. Þegar lögregla réðist til inngöngu skömmu fyrir klukkan ellefu kveiktu þrír árásarmannana á sprengjum sem þeir höfðu fest við sig.

Annar árásarmaður féll í sjálfsmorðssprengju skammt frá tónleikastaðnum, við Boulevard Voltaire götu.

Landamærum Frakklands var lokað og útgöngubann sett á. 

Francois Hollande Frakklandsforseti lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg í Frakklandi í morgun og sagði árásirnar verk hugleysingja. Hollande sagði að gripið yrði til allra mögulegra aðgerða í kjölfar árásanna í gær. Ekkert lát verði á hernaðaraðgerðum Frakka gegn samtökunum í Sýrlandi og Írak.

 

Íslamskt ríki segist bera ábyrgð á árásunum

Í morgun lýstu hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki yfir ábyrgð á árásunum. Árásarmennirnir sjö eru allir látnir. Þeir eru sagðir bæði erlendir og innlendir, á aldrinum 15-18 ára. Því er ljóst er að skipuleggjendur og höfuðpaurar árásanna eru ófundnir.

Fordæma árásirnar

Þjóðarleiðtogar heimsins fordæma árásirnar og votta Frökkum samúð sína. Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu segir árásirnar beinast gegn öllum trúarbrögðum. Bashar al-Assad Sýrlandsforseti fordæmir árásirnar en segir að þær séu afleiðing af stefnu Frakka, sem leitt hefði til útbreiðslu hryðjuverkastarfsemi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands segir hryðjuverkaárásirnar í París vera áminningu um að mesta ógn okkar tíma sé sú sem kennd er við öfgafullt íslam. Hann segir að bregðast verði við henni með því að halda í gildi lýðræðislegs samfélags. Hatursáróður sé sigur fyrir öfgaöflin og ekki rétta leiðin til að minnast þeirra sem fórust.

 

Meta stöðuna hérlendis

Sigmundur Davíð Gunnlausson forsætisráðherra segir að meta þurfi aðstæður hér á landi í ljósi hryðjuverkanna í París. Sigmundur segir að Íslendingar vinni með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum og fylgist með þróun mála. Í gærkvöld fór í gang viðbragðsáætlun þar sem lögreglan hér setti sig í samband við lögreglu í nágrannalöndunum til að meta hvort hætta sé á slíkum hryðjuverkum annars staðar, og hvort hætta sé á þeim hér á landi.