Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Árásarmenn felldir í Sómalíu, 13 í valnum

13.07.2019 - 07:18
epaselect epa05565146 Firefighters gather at the scene of a suicide car bomb attack in Mogadishu, Somalia, 01 October 2016. Reports say that a suicide car bomb rammed into a popular restaurant near the presidential palace in the capital Mogadishu, killing
Vígamenn al-Shabab nota iðulega bíla, hlaðna sprengiefni, við árásir sínar, sem oftar en ekki eru sjálfsmorðsárásir. Þessi mynd er tekin eftir eina slíka árás í Mogadishu. Mynd: EPA
Sérsveitir lögreglu réðust til atlögu gegn fjórum hryðjuverkamönnum sem skutu sér leið inn á hótel í sómölsku hafnarborginni Kismayu í gærkvöld og felldu þá alla. Þrettán borgarar liggja í valnum og yfir 30 særðust í árásinni, sem hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafa þegar lýst á hendur sér. „Aðgerðinni er lokið,“ sagði Mohamed Abdi, yfirmaður lögreglu í borginni við fréttamann Reuters í morgun.

„Eftir því sem við best vitum dóu þrettán manns. Mörgum var bjargað. Árásarmennirnir fjórir voru skotnir til bana.“ Bíl var ekið inn í hótelið í gærkvöld og sprengdur þar í loft upp ásamt bílstjóranum, áður en byssumennirnir réðust inn og skutu á allt og alla.

Fundur stóð yfir í salarkynnum hótelsins, þar sem stjórnmálamenn og leiðtogar ættbálka í nærliggjandi sveitum réðu ráðum sínum vegna sveitarstjórnarkosninga sem eru í vændum. Margir hinna látnu eru úr þeirra hópi en einnig fórust tveir fréttamenn.

Al-Shabab veldur enn usla

Al-Shabab hreyfingin, sem kennir sig við Al-Kaída hryðjuverkanetið, var hrakin frá höfuðborginni Mogadishu árið 2011 og frá Kismayo ári síðar. Vígamenn samtakanna hafa raunar verið flæmdir frá öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins á síðustu árum. Samtökin ráða þó enn lögum og lofum á svæði í Suður-Sómalíu, ekki langt frá Kismayo, og gera enn mannskæðar árásir í hvortveggja Sómalíu og nágrannaríkinu Kenía. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV