Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Árás á HS Orku var skipulögð brotastarfsemi

09.09.2019 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Þarna er verið að glíma við alvarlega og skipulagða brotastarfsemi,“ segir Ásgeir Margeirsson, fráfarandi forstjóri HS Orku. Erlendum tölvuþrjótum tókst að brjótast inn í tölvukerfi HS Orku og svíkja út greiðslu sem nemur á fjórða hundrað milljónum króna. Ásgeir segir að þó svo að upphæðin sé há hafi hún ekki áhrif á rekstur félagsins og viðskiptavinir HS Orku eigi ekki að finna fyrir þessu.

Ásgeir vonast til þess að unnt verði að endurheimta stærstan hluta fjárins. 

„Það eru nú nokkuð góðar líkur á því metnar en það er svo sem ekki hægt að fullyrða um þetta. Þetta er náttúrulega lögreglumál og er í rannsókn. Það er nokkuð víst að töluverður hluti af þessum fjármunum er tryggur og það er fyrir mjög snögg og snörp viðbrögð starfsmanna fyrirtækisins þegar þetta kom upp. En þarna er verið að glíma við alvarlega og skipulagða brotastarfsemi,“ segir Ásgeir.

Eru þetta glæpasamtök sem hefur tekist að ná þessu?

„Það veit ég ekkert um,“ segir Ásgeir.

Er árásin gerð erlendis frá?

„Það virðist vera,“ segir Ásgeir.

Hvað er langt síðan þetta gerðist?

„Nokkrar vikur,“ segir Ásgeir. 

Hann segist ekki geta gefið upp frá hvaða landi árásin var gerð.

Var árásin gerði í einu lagi eða voru þetta nokkur tilvik?

„Ég get ekki sagt neitt meira vegna lögreglurannsóknar á málinu,“ segir Ásgeir.

En hvaða áhrif hefur þjófnaðurinn á rekstur HS Orku?

„Stærðargráða málsins er þannig að hún setur fyrirtækið ekki á hliðina á nokkrun hátt. Þó þetta séu verulegir fjármunir er rétt að setja þá í samhengi við stærð og rekstur fyrirtækisins. Viðskiptavinir, birgjar eða aðrir munu ekki finna fyrir því að þessi árás hafi verið gerð þó af því verði eitthvert tjón. Það er ekki þannig högg fyrir félagið,“ segir Ásgeir.

Fram hefur komið í fréttum að Ásgeir hyggst láta af störfum hjá HS Orku. Félagið Jarðvarmi, sem er í eigu 14 lífeyrissjóða, jók eignarhlut sinn í HS Orku í maí. Ásgeir segir tölvuárásina ekki tengjast sínum starfslokum heldur fremur breytt eignarhald félagsins. Hann býst við að hætta störfum í haust.

„Ég var beðinn um að vera þangað til annar er tekinn við og ég varð við þeirri beiðni,“ segir Ásgeir.

Nú fyrir stuttu birti HS Orka yfirlýsingu á vef sínum.

Starfsfólki HS Orku varð nýverið ljóst að brotist hefði verið inn í tölvukerfi félagsins, með þeim afleiðingum að utanaðkomandi aðila tókst að svíkja umtalsverða fjármuni út úr félaginu.

Unnið hefur verið náið með lögregluyfirvöldum hér á landi og erlendis að endurheimt fjármunanna.

Vegna skjótra viðbragða bæði starfsfólks og lögreglu hefur félagið ástæðu til að ætla að stóran hluta fjárhæðarinnar megi endurheimta og þannig verði að líkindum hægt að takmarka afleiðingar glæpsins að miklu leyti.

Málið mun engin áhrif hafa á rekstrargrundvöll, reglubundna starfsemi HS Orku, viðskiptavini eða birgja fyrirtækisins

Vegna rannsóknarhagsmuna er því miður ekki hægt að veita nánari upplýsingar á þessu stigi.