Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áramótaveðrið: Vindasamt gamlárskvöld í vændum

30.12.2019 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Veðurstofan gerir ráð fyrir vindasömu gamlárskvöldi víðast hvar á landinu. Það styttir upp og dregur úr vindi sunnan- og austanlands annað kvöld. Veðurfræðingur gerir ekki ráð fyrir því að mengun frá flugeldum muni liggja yfir höfuðborginni eftir sprengjuregnið.

Útlitið betra sunnan- og austanlands heldur en norðan og norðvestan

Veðurhorfur fyrir áramótabrennur og flugelda eru töluvert betri á Suður- og Austurlandi en fyrir norðan og vestan. Það gengur í sunnan 13 til 18 m/s á morgun, gamlársdag, með rigningu um sunnan- og vestanvert landið, en þurrt norðaustantil. Hiti verður á bilinu tvö til sjö stig á morgun. Eiríkur Örn Jóhannesson er veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

„Það verður suðvestan átt. Hún verður mjög stíf á á Norðurlandi eða bara Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og alveg inn í Eyjafjörðinn en hægari sunnanlands og austan. Og svo úrkomulega þá verða svona skúrir um sunnan og vestanvert landið en bjartara norðaustan lands. Það lítur nú mun betur út sunnan- og austanlands heldur en norðan og norðvestan. Það er svona suðvestan strengur yfir alveg Breiðafirði og alveg að Eyjafirðinum."

„Ekkert mengunarský“

Mengun frá flugeldum hefur síðustu ár legið yfir höfuðborgarsvæðinu og víðar á nýársnótt og fram á nýársdag. Eiríkur reiknar ekki með því í ár. 

„Það verður ekkert svona, eins og þetta lítur út núna verður ekkert mengunarský eins og verið hefur síðustu tvö, þrjú áramót. Þá ætti þetta að fjúka svona að einhverju leiti. Við erum að tala um svona fimm til tíu metra hérna á Höfuðborgarsvæðinu og þeim vindi ætti þetta að fjúka burt."