Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áramótaheit: Háleit markmið í upphafi árs

30.12.2018 - 20:50
Mynd:  / Pexels
Áramótaheit eiga sér langa sögu víða um heim. Margir eru með háleit markmið í upphafi árs en algengt er að fólk missi sjónar á ætlunarverkinu þegar líður á árið. 

Að grennast, stunda meiri útivist og hætta að reykja eru markmið sem fólki dettur í hug að setja sér sérstaklega á tímamótum eins og áramótum. Vegfarendur sem fréttastofa náði tali af tóku áramótaheitin misalvarlega.

Strengirðu áramótaheit? „Ég ætla að reyna að vera frískari og aktífari af því ég er kominn á þann aldur að maður þarf aðeins að fara að hugsa um það,“ segir Sigurður Jónsson.

„Ég ætla að hætta að veipa,“ segir Pálmi Guðfinnsson.

Ragnar Matthíasson, mannauðs- og stjórnunarráðgjafi heldur námskeið í markmiðasetningu. Hann segir að um 70% falli af leið fyrsta mánuðinn en að það sé hluti af markmiðasetningu að gera mistök.

En hvernig á fólk að ná áramótaheitunum sínum? „Algengasta leiðin fyrir því að fólk klikkar er að það er ekki búið að hugsa nægilega út í hvert markmiðið er. Að standa upp í gamlárspartí og hoppa upp á borð og segja ég ætla að ná af mér tíu kílóum og svo daginn eftir að jafnvel að vera búin að gleyma því, það er ekki vænleg leið til árangurs, heldur að ígrunda hvað það er sem skiptir mann máli,“ segir Ragnar.

Eru áramótaheit barns síns tíma? „Markmiðasetning sem slík hefur alveg sannað gildi sitt. Það er ekkert endilega rétta leiðin að gera það um áramót. Aðalatriðið er að maður verður að vera búinn að ígrunda hvaða markmiðum maður vill ná. Dagsetningin er ekki aðalatriðið,“ segir Ragnar.

Strengir þú áramótaheit? „Ég hætti því sem ég vil hætta. Hætti að reykja þegar ég vil hætta að reykja,“ segir Gunnar Valur Jónsson.

„Ég bara vona að ég lifi, næsta ár,“ segir Bjarni Sigurgrímsson.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV