Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

„Arabíska vorið misheppnaðist“

16.01.2014 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, óttast að borgarastyrjöldin í Sýrlandi gæti breyst í alheimsstríð fari önnur ríki að skipta sér of mikið af málum. Hann segir að arabíska vorið hafi misheppnast.

Magnús Þorkell er prófessor við Williams háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum og helsti sérfræðingur Íslendinga í málefnum Mið-Austurlanda. Hann segir að það sé vissulega jákvætt að einræðisherrum hafi verið steypt af stóli, en því miður hafi lýðræðislega sinnaðir stjórnmálamenn ekki tekið við.

Efnahagurinn í rúst

„Þetta er alræðismenn sem halda uppi sínum hagsmunum þannig að því miður þá virðist sem arabíska vorið hafi misheppnast,“ segir Magnús. „Þetta eru því gífurleg vonbrigði, ekki síst fyrir fólkið sem hefur staðið að þessum mótmælum. Efnahagskerfið er algjörlega í rúst, atvinnuleysi er gífurlegt og fólk hefur litla ástæðu til að fagna því að jákvæðir vindar blási í stjórnmálum lands síns.“

Hættulegt fyrir heimsfriðinn

Magnús Þorkell segir að enginn hafi átt von á blóðsúthellingunum og því mikla ofbeldi sem beitt sé í Sýrlandi. Þar ríki algjört neyðarástand. Það versta sem geti gerst sé að önnur ríki blandist um of inn í málin þannig að neyðarástand skapist á öllu þessu svæði. Þar á hann einkum við Tyrkland, Ísrael, Rússland, Íran og svo Bandaríkin

„Þetta væri þá ekki lengur borgarastyrjöld heldur stríð sem margar þjóðir færu að skipta sér af. Og það er það sem fólk hefur miklar áhyggjur af. Það gæti verið eins og Balkansskagi 1914 sem byrjaði bara eins og tiltölulega lítil deila en breyttist svo í alheimsstríð.“

Staða kvenna hefur versnað

Mannréttindi hafa verið fótum troðin og staða kvenna hefur versnað til muna, Segir Magnús Þorkell: „Lagaleg staða þeirra hefur breyst, stjórnleysi hefur leitt til þess að ofbeldi gegn þeim hefur aukist á götum úti, þær eru ragar við að beita sér í stjórnmálum, þeim er ýtt til hliðar á mörgum stöðum, svo að efnahagsleg, félagsleg og persónuleg staða þeirra hefur breyst til muna,“ segir hann.

Lýðræðisdraumar Egypta horfnir

Þá segir hann að‘ valdarán hersins í Egyptalandi hafi endanlega bundið endi á lýðræðisdrauma Egypta. Allar vonir um einhvers konar lýðræði þar í landi séu með öllu úr sögunni.