„Ó er það í dag?" skrifaði Hillary Clinton á Twitter í gær og vísaði á vefsíðu þar sem þess er minnst að eitt ár er síðan James Comey, þáverandi yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI, ákvað að opna rannsókn á tölvupóstum hennar á nýjan leik.
Stjórnmálaskýrandinn Nate Silver minntist þessa á Twitter í gær og sagði ákvörðun Comeys að öllum líkindum hafa haft úrslitaáhrif á útkomu forsetakosninganna í fyrra. Comey kom fram á blaðamannafundi 28. október, aðeins 11 dögum fyrir forsetakosningarnar í fyrra. Þar greindi hann frá því að hann ætlaði að opna rannsóknina á tölvupóstum Clintons, en hún notaði oft eigin tölvupóstþjón í opinberum erindagjörðum í stað þess opinbera.
Clinton hefur sjálf sagt að ef ekki hefði verið fyrir þennan blaðamannafund og ákvörðun Comeys hefði hún að öllum líkindum orðið forseti. Hún hlaut reyndar nærri þremur milljónum fleiri atkvæði en Donald Trump á landsvísu, en Trump hlaut fleiri kjörmenn og varð því réttkjörinn forseti Bandaríkjanna.