Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Apu missir röddina

Mynd með færslu
 Mynd: The Simpsons

Apu missir röddina

18.01.2020 - 08:25

Höfundar

Eftir ásakanir um að ýta undir rasískar staðalímyndir hefur leikarinn Hank Azaria ákveðið að hætta að ljá indverska verslunareigandanum Apu Nahasapeemapetilon í þáttunum um Simpson fjölskylduna rödd sína. Azaria greindi kvikmyndavefnum SlashFilm frá þessu í viðtali í gær.

Ekki er víst hvort Apu fær nýja rödd. „Það eina sem við vitum er að röddin mín verður ekki notuð lengur," sagði Azaria. Hann segir alla sem koma að gerð Simpson fjölskyldunnar hafa verið sammála ákvörðuninni. Hún sé sú eina rétta og öllum líði vel með hana.

Umræðan um rödd Apus varð háværari árið 2017 þegar indversk-bandaríski myndasöguhöfundurinn Hari Kondabolu gerði heimildamynd um hann. Myndin ber nafnið Vandinn við Apu og greinir Kondabolu þar frá því að Apu hafi verið nánast eina suður-asíska persónan í bandarísku sjónvarpi á uppvaxtarárum hans. Hann sagði í samtali við BBC að vandinn við persónuna væri að Apu væri skilgreindur af starfi sínu sem verslunareigandi, og hversu mörg börn hann ætti með eiginkonu sinni sem hann kvæntist samkvæmt ráðstöfun foreldra þeirra. Kondabolu sagði Apu hafa verið eina örfárra birtingarmynda suður-asískra persóna í bandarísku sjónvarpi, og börn hafi ítrekað hermt eftir Apu til að stríða honum.

Aðspurður hvað honum finnist um að rödd Azaria njóti ekki lengur við hjá Apu segist Kodabolu vona að persónan verði samt áfram í þættinum. Bráðsnjallir handritshöfundar þáttanna geti gert eitthvað áhugavert með hann.

Kondabalu birti einnig færslu á Twitter þar sem hann segir heimildamynd sína ekki hafa átt að verða til þess að persóna yrði skrifuð úr teiknimyndaþáttum. Heldur hafi hann viljað vekja umræðu um kynþætti, birtingarmynd og samfélag Bandaríkjamanna af indverskum ættum. Einnig vildi hann sýna að þó manni líki við eitthvað geti maður samt verið gagnrýninn á hluta þess.

Tengdar fréttir

Svanasöngur Simpson fjölskyldunnar á næsta leiti?

Sjónvarp

Skapari The Simpsons gerir lítið úr gagnrýni

Sjónvarp

Eru Simpsons þættirnir tímaskekkja?