Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Appelsínugul viðvörun og óvissustig á þjóðvegum

27.02.2020 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum
Veðurstofan hefur hækkað viðbúnað á Suðurlandi í appelsínugult vegna austan storms og stórhríðar. Viðvörunin tekur gildi klukkan 18 og verður til miðnættis. Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendinu.

Á Suðurlandi er gert ráð fyrir 23-28 m/s og vindhviðum allt að 40 m/s. Fyrst austantil á svæðinu, einkum undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum en einnig með suðurströndinni seinna í kvöld. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar og ekkert ferðaveður meðan viðvörunin er í gildi.

Óvissustig er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi á milli hálfþrjú og fimm í dag og gæti komið til lokunar með stuttum fyrirvara. Það gildir einnig um Hellisheiði frá klukkan 15. Suðurstrandavegi hefur verið lokað.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar sagði í færslu í morgun að búist væri við því að það myndi hvessa með skafrenningi síðar í dag. Búist er við hviðum upp í 35-40 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Mýrdal í dag og 16-19 metrum á sekúndu austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Þá er gert ráð fyrir skafbyl á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum frá klukkan átta.