Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annarri umræðu um fjárlagafrumvarp lokið

14.11.2019 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Annarri umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs lauk með atkvæðagreiðslu í dag. Breytingartillögur stjórnarliða náðu fram að ganga en tillögum stjórnarandstæðinga var hafnað. Oftast féllu atkvæði eftir línum stjórnar og stjórnarandstöðu.

Einni tillögu Miðflokksins var þó hafnað af bæði öðrum stjórnarandstæðingum og stjórnarliðum, hún sneri að því að hafna hækkun kolefnisgjald sem af hálfu stjórnvalda er hugsað sem liður af aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. 

Tillaga Samfylkingarinnar um að auka fjárheimildir Skattrannsóknarstjóra og Héraðssaksóknara vegna Samherjamálsins var felld. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að auka fjárveiting sem stjórnarliðar styddu væri til að uppfylla skilyrði alþjóðlegs samstarfshóps um varnir gegn peningaþvætti. Ráða þyrfti þrjá starfsmenn til Héraðssaksóknara og þeir mættu ekki annast önnur mál en peningaþvættismál. „Til dæmis ekki rannsókn á mútugreiðslum á suðrænum slóðum.“

Fjárlagafrumvarpið fer nú til nefndar á ný og síðan í þriðju og síðustu umræðu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV