Annað hvort að segja af sér eða sitja áfram

06.04.2016 - 12:20
Mynd: RÚV / RÚV
Það er stjórnskipulega óumdeilanlegt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé forsætisráðherra en hann getur ekki stigið tímabundið til hliðar og falið öðrum verkefni sín. Þetta sagði Björg Thorarensen lagaprófessor í aukafréttatíma RÚV í hádeginu. Aðspurð hvort forsætisráðherra gæti setið áfram en skipað annan tímabundið í sinn stað svaraði Björg. „Að sjálfsögðu ekki. Það er annað hvort að segja af sér eða vera í embætti.“

Björg sagði að forsætisráðherra gæti ekki fengið annan til að gegna störfum sínum tímabundið nema með því að auglýsa einhvern sem staðgengil sinn, það ætti ekki við í þessu tilfelli.

Ferlið sem nú er útlit fyrir er það að forsætisráðherra fari á fund forseta og biðjist lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Síðan yrði skipað nýtt ráðuneyti undir forystu nýs forsætisráðherra, sagði Björg. Hlutverk forseta væri það að taka við afsögn gömlu ríkisstjórnarinnar og hafa vissu fyrir því að ný ríkisstjórn nyti meirihlutastuðnings á Alþingi.

Ekkert skýrara

Viðbót 12:53 Björg Thorarensen var aftur til viðtals í lok fréttatímans þegar rætt hafði verið við stjórnmálamenn í stjórnarliðinu og stjórnarandstöðunni. Hún sagði að staðan hefði ekki skýrst í því sem þar kom fram, enn væri um algjört millibilsástand. Hún sagði þó útlit fyrir að stjórn sömu flokka yrði við stjórnvölinn þegar upp yrði staðið.

Leiðrétt 12:27: Orðið ekki vantaði í fyrstu setningu fréttarinnar í upphaflegri gerð, hún hefur verið umskrifuð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi