Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Annað framkvæmdaleyfi fellt úr gildi

27.10.2016 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd: Hermann Aðalsteinsson
Framkvæmdaleyfi sem Þingeyjarsveit veitti Landsneti fyrir Þeistareykjarlínu 1 hefur verið fellt úr gildi. Framkvæmdaleyfið sem veitt var fyrir Kröflulínu 4 var hinsvegar ekki fellt úr gildi og því getur Landsnet nú klárað lagninu Kröflulínu, frá Kröflu að Þeistareykjum.

Þetta þýðir að Landsnet getur ekki framkvæmt á línuleið Þeistareykjalínu innan Þingeyjarsveitar, sem liggur frá Þeistareykjavirkjun og að Bakka, í það minnsta ekki strax. Sú vinna var þó skemmst á veg kominn, mest var búið að vinna við lagningu Kröflulínu. 

Landvernd kærði í sumar útgáfu framkvæmdaleyfa í Norðurþingi, Skútustaðahreppi og í Þingeyjarsveit. Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu í byrjun október, að ógilda þyrfti framkvæmdaleyfið í Skútustaðahreppi. Sveitarstjórnin gaf í svo út nýtt framkvæmdaleyfi í gær, þar sem bætt var úr þeim göllum sem voru á málsmeðferð við veitingu fyrsta leyfisins. Norðurþing slapp með skrekkinn - þar taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að ógilda framkvæmdaleyfið. Í dag komst nefndin svo að þeirri niðurstöðu að Þingeyjarsveit hefði staðið rétt að veitingu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu, en ekki fyrir Þeistareykjalínu.

Ástæðan fyrir því að úrskurðarnefnd fellir þennan úrskurð um Þeistareykjalínu er sú að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hafi ekki í öllu gætt að ákvæðum skipulagslaga, náttúruverndarlaga og eftir atvikum stjórnsýslulaga. Því þyki það óhjákvæmilegt að ógilda þurfi framkvæmdaleyfið. Eins og í máli Skútustaðahrepps þótti úrskurðarnefnd að sveitarstjórnin hefði ekki rökstutt ákvörðun sína um veitingu leyfisins nægjanlega vel, þá sérstaklega um val á línuleið. Línuleiðin liggur um Jónsnípuskarð en í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismat kom fram að kanna þyrfti aðra útfærslu á línunni, um Höfuðreiðarmúla, sem væri 1,3 kílómetrum lengri.  Í þessari afgreiðslu var ekki deilt um jarðstrengi, eins og raunin var hjá Skútustaðahreppi.

Í úrskurðinum segir að sveitarstjórn hafi borið að færa sérstaka rökstuðning fram fyrir því hvers vegna hún gerir ekki athugasemd við valið á línuleiðinni að teknu tilliti til umhverfisáhrifa. Þá hafi hún ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, með því að krefja Landsnet um könnun á þeim kosti að leggja línuna fyrir Höfuðreiðarmúla.

Annað gildir hinsvegar um Kröflulínu, en þar þótti úrskurðarnefnd að sveitarstjórn hefði tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ásættanlegum hætti og var kröfu Landverndar um ógildingu framkvæmdaleyfisins því hafnað.

Í tilkynningu sem Landsnet sendi frá sér eftir að niðurstaða úrskurðanefndar í báðum málum var ljós kemur fram að nú geti framkvæmdir við Kröflulínu haldið áfram. Þá sé búist við því að Þingeyjarsveit fari fyrir málið að nýju og fari yfir þær athugasemdir sem fram komu í úrskurðinum.