Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Annað eldgos ef gosið í Holuhrauni hættir

15.09.2014 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Alveg ljóst er að það kemur annað eldgos ef hættir að gjósa í Holuhrauni. Þetta segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur. Gliðnun jarðskorpunnar sem nú standi yfir haldi áfram í nokkra mánuði. Nýja hraunið þekur nú næstum 30 ferkílómetra.

Ármann segir að gosið í Holuhrauni sé heldur minna en það var í gær. „Það dregur hægt og rólega úr þessu núna held ég.“

Ármann telur þó of snemmt að segja til um hvort það sé að klárast, gerist það, þá sé lítill hluti af þessari kviku komin upp að annað eldgos hefjist eftir einhverja daga eða vikur. „Við erum náttúrulega komin í svona gliðnunarhrinu og hún klárast ekkert á einum mánuði sko. Það tekur nokkra mánuði þó við séum ekki alltaf með eldgos - þau verða bara reglulega á þessum tíma.“

Aðeins nokkrir Vísindamenn fóru að gosstöðvunum í dag að skipta um rafgeyma á tækjum. Hinir eru í Mývatnssveit. Þar er verið að gera við bíla þeirra en haldið verður aftur á stöðvarnar á morgun. Hraunið breiðir nú úr sér í stað þess að lengjast. Hraunkantarnir næst eldstöðinni eru farnir að bresta segir Ármann.

Í gær tók það hraun tvo klukkutíma að flæða frá meira en eins kílómetra löngum brostnum kanti yfir nærri þrjá ferkílómetra á söndunum. Hann telur að stærð hraunsins sé að nálgast 30 ferkílómetra. Frá hádegi hefur mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs mælst óveruleg á mælistöðvunum við Mývatn, Egilsstöðum og á Reyðarfirði. 

Bárðarbunga hefur nú sigið um heilan metra frá því að kröftugur skjálfti upp á 5,4 varð í Bárðarbungu í morgun. Jarðskjálftarnir sem eru 4,5 og stærri eru nú komnir á fimmta tug síðan um miðjan ágúst.