Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Annað barn smitaðist af mislingum í flugi

05.03.2019 - 17:07
Mynd: CDC/Dr. Heinz F. Eichenwald / Wikimedia Commons
Fjórir hafa nú greinst með mislinga hér á landi á undanförnum dögum. Um miðjan febrúar kom maður með mislinga hingað til lands með flugi og fór svo með innanlandsflugi til Egilsstaða. Þrír hafa greinst sem smituðust um borð, tvö börn og einn fullorðinn. Greint var frá því í gær að 11 mánaða gamalt barn hafi smitast og í dag var greint frá því að annað barn hafi smitast í sama flugi.

Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum, segir að annað barnið hafi verið lagt inn á sjúkrahús og sé á batavegi. Hitt barnið veiktist en gat dvalið heima. „Bæði þessi börn eru innan við 18 mánaða gömul en það er einmitt við þann aldur sem fyrsta mislingabólusetningin er gefin. Það er ágætt að það komi fram að það er ekki við neinn að sakast. Það er ekki neinn sem gerði neitt vitlaust. Það var ekki neinn sem gleymdi eða vildi ekki láta bólusetja. Því er ekki til að dreifa. Þetta eru frábærir foreldrar yfirvegaðir og skynsamir en börnin voru bara ekki komin á þann aldur að það eigi að bólusetja þau,“ sagði Ásgeir í Síðdegisútvarpinu í dag. 

Annað barnið var á leikskóla í síðustu viku. Haft hefur verið samband við foreldra allra barna, yngri en 18 mánaða, í þeim skóla. Ásgeir segir að hafa þurfi sérstakt eftirlit með börnunum til að rjúfa mögulega keðju af smiti. Börnin þurfa að vera heima um tíma þar til ljóst er hvort þau séu smituð. Mislingar eru bráðsmitandi og geta verið hættulegur sjúkdómur.