Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Anis Amri skotinn til bana í Mílanó

23.12.2016 - 09:49
Mynd með færslu
Anis Amri. Mynd: EPA - DPA/BKA
Túnismaðurinn Anis Amri, sem grunaður er um að hafa orðið 12 manns að bana í hryðjuverkaárás í Berlín á mánudag, var skotinn til bana í Mílanó í nótt. Marco Minniti, innanríkisráðherra Ítalíu, staðfesti þetta á blaðamannafundi í morgun. 

Að sögn fjölmiðla var bifreið Amri stöðvuð við hefðbundið eftirlit um þrjúleytið í nótt. Hann hefði þá dregið upp byssu og skotið að lögreglu en verið skotinn til bana. Einn lögreglumannanna hefði fengið skot í öxlina en væri ekki í lífshættu. Amri hafði farið huldu höfði eftir árásina í Berlín en fingraför hans og skilríki fundust í flutningabifreiðinni sem notuð var í árásinni.

Að sögn fréttastofunnar AFP hafði Amri tengsl á Ítalíu. Hann hefði dvalist þar í nokkur ár eftir að hann kom þangað frá Túnis árið 2011. Hann hefði verið hluta tímans í fangelsi eftir að hann var dæmdur fyrir að kveikja í miðstöð fyrir hælisleitendur. Amri hafi verið sleppt í fyrra og þá hafi hann haldið til Þýskalands. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV