Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Andlitsgrímur seljast í kassavís til útflutnings

28.01.2020 - 19:45
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með stöðunni vegna kórónuveirunnar og kínverski sendiherrann á Íslandi segist bjartsýnn á að sigur vinnist á veirunni. Andlitsgrímur hafa selst í kassavís í Reykjavík, asískir ferðamenn taka þær með sér heim. 

Landlæknisembættið hefur birt á heimasíðu sinni ýmsar upplýsingar um stöðu mála, viðbrögð og svör við helstu spurningum og þær má lesa hér. Heilbrigðisráðherra segir að nú þegar lýst hefur verið yfir óvissustigi, sé sóttvarnalæknir í nánu sambandi við heilbrigðisráðherra.

„Nú er það þannig að það er tiltekinn hópur sem mun ráða ráðum sínum dag hvern og ég verð upplýst í kjölfarið á þeim fundi, við höfum komið á því fyrirkomulagi, ég og sóttvarnarlæknir,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Jin Zhijin sendiherra Kína á Íslandi segist hafa áhyggjur af ástandinu í Wuhan og víðar og útbreiðslu kórónaveirunnar. Stjórnvöld í Kína hafi gripið til víðtækra aðgerða til að draga úr útbreiðslunni. Meðal annars byggt sjúkrahús og takmarkað hópferðir til útlanda.

„Ég er mjög bjartsýnn á að við getum unnið þessa baráttu innan skamms.“

Aðgerðir kínverskra stjórnvalda gætu dregið úr komu ferðamanna til Íslands.

„Út frá heilsuverndarsjónarmiðum þá fylgjumst við með og fylgjum þeim viðbragðsáætlunum sem gerðar eru og tökum einn dag í einu. Út frá viðskiptalegum forsendum reiknast okkur til að það sé  um þriðjungur kínverskra ferðamanna sem hingað koma, sem koma í hópum og kínversk yfirvöld hafa gert ákveðnar ráðstafanir hvað hópa varðar, þanng að fjárhagslega, enn sem komið er, eru þetta ekki mikil áhrif,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála.

Kínverski sendiherrann segist bjartsýnn á að ferðamannastraumurinn aukist aftur þegar ástandið batnar.

„Sérstaklega eftir fyrsta beina flug milli Kína og Íslands rætist í lok mars. Ég er mjög bjartsýnn að ástandið getur batnað mjög í framtíðinni.“

Birtingarmynd á viðbrögðum við kórónaveirunni eru margs konar, ein þeirra er andlitsgríma, þær seljast núna eins og heita lummur og það er jafnvel verið að flytja þær út.   Það eru asískir ferðamenn sem kaupa grímurnar. Fyrir viku seldust 100 hundrað á dag í Íslandsapóteki og síðan hefur salan margfaldast og í gær seldust 1200 grímur á klukkutíma. Lyfsalinn segir erfitt orðið að fá grímur, segir Skúli Skúlasön lyfsali.

„Við náðum hins vegar inn einhverjum 4.400 grímum fyrir daginn í dag og við erum búnir með 3000 grímur.“

Skúli segir viðskiptavini hafa brostið í grát þegar grímurnar seldust upp. En þær seljast ekki bara í apótekum, einnig í byggingarvöruverslunum og það í kassavís, að sögn Hafsteins Guðmundssonar í Brynju.

„Já bara með látum. Það er útflutningur á rykgrímum frá Íslandi.“
Hverjir eru að kaupa þetta?
„Þetta eru Asíubúar upp til hópa, algjörlega.“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV