
Andlit ferðaþjónustunnar í útrýmingarhættu
Hrun frá aldamótum
Lundinn er algengasti fugl á Íslandi, hér verpa um tvær milljónir para. Frá aldamótum hefur stofninn nær hrunið og telja vísindamenn það einkum tengjast sílaleysi og hlýjum sjó. Landselastofninn hefur líka átt verulega undir högg að sækja, fækkun landsela er einkum tengd veiðum og hjáveiðum.
Fleiri þættir geta skipt máli; loftslagsbreytingar og mengun, fæðubrestur og búsvæðaröskun.
Prófasturinn andlit ferðaþjónustunnar
Segja má að lundinn sé andlit ferðaþjónustunnar á Íslandi, prófasturinn með marglita gogginn á þátt í því að laða hingað milljónir ferðamanna. Í minjagripabúðum er enginn skortur á lundum en úti í náttúrunni hefur þeim hríðfækkað undanfarin ár. Frá aldamótum hefur stofninn minnkað um um það bil 40 prósent og ef fækkunin heldur áfram gæti stofninn minnkað um 90% á næstu fimm áratugum, miðað við stofnstærðina árið 2002.
Stofn tuskusela stærri en landselsstofninn?
Það er hugsanlegt að stofnar tuskusela hér á landi telji nú fleiri dýr en landselastofninn, sem hefur aldrei mælst minni en í ár. Landselastofninn var fyrst mældur árið 1980, þá voru dýrin 33 þúsund en nú eru einungis um 7600 landselir við Ísland. Ef fækkunin heldur áfram verður stofninn kominn niður í 5300 dýr árið 2025.
Veiddur til að verjast hringormi
Flogið er yfir og landsela stofninn talinn á fimm ára fresti, milli talninga 2011 og 2016 minnkaði stofninn um þriðjung sem er alvarlegt hjá tegund sem fjölgar sér hægt.
„Aðalástæður fækkunarinnar má líklega rekja til þess að það var markvisst verið að fækka í landselsstofninum 1980 til 1990. Þá fækkaði næstum um helming í stofninum og síðan hefur hann ekki náð sér á strik. Það er verið að veiða sel ennþá og eitthvað af sel drukknar í fiskveiðinetum,“ segir Sandra Magdalena Granquist, dýraatferlis- og vistfræðingur hjá Hafró, sérfróð um seli.
Fyrst var verið að fækka sel til að losna við hringorm úr fiski, nú er það ekki gert en töluvert er veitt af sel til að koma í veg fyrir hugsanleg áhrif sels á lax. Rannsóknir Hafró benda þó til þess að laxinn sé selnum ekki jafn mikilvæg bráð og talið hefur verið. Hafró er líka að skoða áhrif truflunar manna við sellátur og áhrif eiturefna í sjó á selina, þá er unnið að því að draga úr líkum á því að selir festist í fiskveiðinetum. Sandra segir það bæði hag sjómanna og sela, enda tímafrekt að losa dýrin úr netunum.
Lundinn í hættu á heimsvísu
Búsvæði beggja tegunda eru vítt og breitt um landið. Stærsta lundabyggðin er í Vestmannaeyjum og mikilvæg sellátur til dæmis við Vatnsnes, á Ströndum og við mynni Lagarfljóts. Stærstu heimkynni Lundans eru hér við Ísland og í Noregi. Þar hefur stofninn líka verið að minnka. Lundinn er því skráður í nokkurri hættu á heimsválista og í hættu á evrópskum válista. Landselurinn telst aftur á móti ekki í hættu á heimsvísu, heimsstofninn telur um 600 þúsund dýr. Okkar landselastofn er þó einstakur, einangraður og erfðafræðilega ólíkur öðrum landselum í norðaustur Atlantshafi.
„Berum ábyrgð á þessum tegundum“
Lundinn fellur undir svokölluð villidýralög. Hann er friðaður en þó ekki alveg, það má veiða hann hluta sumars og taka egg og unga þar sem hefð er fyrir því. Umhverfisráðherra vill endurskoða villidýralögin en kemur bann við veiðum til greina?
„Takmarkanir eða bann, sú ráðstöfun sem þarf til að sporna gegn því að þessi mikilvægi fuglastofn deyi út hér á Íslandi, það væri grafalvarlegt mál,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Greina þurfi þá þætti sem hægt sé að hafa áhrif á. Stjórnvöld hyggist vinna viðbragðsáætlun vegna úttektar Náttúrufræðistofnunar og í stjórnarsáttmála sé kveðið á um að taka villidýralögin til endurskoðunar.
„Við berum þarna ábyrgð á þessum tegundum og verðum að axla þá ábyrgð.“
Lítil vernd fyrir selin
Selurinn nýtur ólíkt lundanum lítillar verndar og heyrir ekki undir villidýralög og stuðst er við talsvert gamla löggjöf, sum lögin eru raunar frá fyrri hluta síðustu aldar. „Löggjöfin heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið en við þurfum að horfa til þess að væntanlega þarf að draga úr veiðum úr landsselnum,“ segir Guðmundur Ingi.
Umhverfisráðherra telur að horfa verði sérstaklega til sellátra, skoða hvort ferðamenn trufli þá um of.
Hafró vill veiðibann og betra eftirlit
Hafrannsóknastofnun ráðleggur sjávarútvegsráðuneytinu að banna beinar veiðar. „Við leggjum líka til að veiðiskráningarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar og skráning á öllum verði lögbundnar. Eins og stendur er ekki lögbundið að skrá veiði og erfitt að halda utan um veiðitölur,“ segir Sandra Magdalena.
Lundi og landselur eru ekki einu dýrin í bráðri hættu, fleiri tegundir eru í bráðri hættu, til dæmis skúmur. Nánar má lesa um það á vef náttúrufræðistofnunar.