Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Andlát Karimovs staðfest

02.09.2016 - 17:50
Erlent · Asía
epa04839923 Uzbekistan's President Islam Karimov gestures while speaking to Russian President Vladimir Putin (not pictured) during their meeting at the SCO (Shanghai Cooperation Organization) summit in Ufa, Russia, 10 July 2015. Ufa is hosting SCO
Islam Karimov. Mynd: EPA - AP/POOL
Ríkissjónvarpið í Úsbekistan staðfesti síðdegis að Islam Karimov, forseti landsins, væri látinn og lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu. Sjórnvarpið sagði að Karimov yrði jarðsettur í borginni Samarkand á morgun. 

Greint var frá því um síðustu helgi að Karimov hefði verið fluttur á sjúkrahús og þótti það benda til að hann væri alvarlega veikur, því fregnir um heilsufar eða einkalíf forsetans hafa verið afar takmarkaðar. Tilkynning barst svo í morgun að forsetinn væri þungt haldinn og að líðan hans hefði versnað.

Á ríkisstjórnarfundi í Ankara skömmu síðar, sem sýndur var beint í sjónvarpi, sagði Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, Karimov væri látinn, en það liðu nokkrar klukkustundir áður en stjórnvöld í Úsbekistan staðfestu það.

Karimov var við völd í Úsbekistan í meira en aldarfjórðung, frá því áður en gömlu Sovétríkin liðuðust í sundur. Fréttastofan AFP segir Karimov hafa stjórnað með harðri hendi og hafa sætt harðri gagnrýni mannréttindasamtaka sem hafi sakað hann um að beita óhóflegri hörku og grimmd við að kveða niður hvers konar mótmæli og andóf.

AFP segir engar vísbendingar hafa komið fram um hver verði eftirmaður Karimovs, en Nigmatilla Yuldashev, forseti öldungadeildar þingsins í Úsbekistan og fyrrverandi dómsmálaráðherra, mun gegna embættisskyldum forseta fyrst í stað.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV