Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ánægja með forsetann í methæðum

24.01.2017 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Nær 82 prósent landsmanna eru ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta en tæp fjögur prósent eru ónægð, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Þetta er mesta ánægja með störf forseta síðan fyrirtækið hóf að mæla hana árið 2011. Fyrra met átti Guðni líka, frá í síðustu mælingu.

Ánægja með forsetann hefur vaxið mjög þessa fyrstu mánuði sem hann hefur verið í embætti. Tæp 69 prósent sögðust ánægð með störf Guðna  í fyrstu mælingunni eftir embættistöku hans. Þá voru rúm sex prósent óánægð með störf hans. 

Nokkur munur er á því hversu ánægt fólk er með störf forsetans eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Um og yfir 90 prósent stuðningsmanna Vinstri-grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar eru ánægð með störf forsetans. Stuðningsmenn Viðreisnar eru þar skammt á eftir. 72 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks eru ánægð með forsetann og 66 prósent Framsóknarmanna. Konur eru aðeins ánægðari með störf forsetans en karlar og landsbyggðarfólk umfram fólk af höfuðborgarsvæðinu. Fólk á fertugs- og fimmtugsaldri er ánægðast með störf forsetans en yngsta og elsta fólkið síður. Munurinn er þó lítill. Ánægja með forsetann virðist líka aukast með meiri menntun.

Óánægju með störf forsetans gætir helst meðal karla, elsta fólksins, fólk með nær milljón í árslaun og stuðningsmanna Framsóknarflokksins. Þó mælist hún í öllum tilfellum innan við tíu prósent.

Ánægja með störf Ólafs Ragnars Grímssonar mældist oftast um og yfir 50 prósentum frá því mælingar hófust 2011. Hún fór þó í 64 prósent snemma árs 2013 og aftur um það leyti sem Ólafur Ragnar lét af embætti. Ánægja landsmanna með störf Ólafs Ragnars fór vaxandi síðustu mánuði hans í starfi.

Niðurstöður könnunarinnar og upplýsingar um aðferðafræði má nálgast hér.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV