Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ánægður að hafa skellt sér í slaginn

26.06.2016 - 00:26
Mynd: RÚV / RÚV
Davíð Oddsson sagðist vera afskaplega ánægður með að hafa skellt sér í forsetakosningaslaginn þegar hann ávarpaði stuðningsmenn á kosningaskrifstofu sinni í kvöld. Hann kvaðst hafa fengið tækifæri til að ýta bábiljum til hliðar og þakkaði fyrir þann stuðning sem margir hefðu sýnt honum.

Davíð sagði að það hefði komið sér á óvart, miðað við þá mynd sem hefði verið dregin upp af sér allt þar til í kvöld, að í sjónvarpssal í kvöld hefðu menn komist að því að hann væri ljúfmenni. „Meira að segja Ástríður farin að trúa þessu,“ sagði hann um eiginkonu sína og uppskar mikinn hlátur.

Aðrir frambjóðendur fengu kveðjur. „Við óskum honum til hamingju og fjölskyldu hans, og farsældar í starfi,“ sagði Davíð um Guðna Th. Jóhannesson. Davíð kvað öllum mikilvægt að Guðna gengi vel í starfi. Hann sagði að Halla hefði einnig fengið gott og myndarlegt fylgi. Undir lokin hefði fylgi færst til hennar þegar fólk sá að hún var númer tvö í baráttunni. Það hefðu menn ekki séð fyrir. Hann talaði líka um Andra Snæ Magnason. „Ég verð líka að viðurkenna að hann er meira ljúfmenni en ég hafði gert ráð fyrir.“

Davíð sagðist telja að sumir tækju úrslitunum vel. Þannig grunaði hann að Ástríði konu hans væri þetta ekki á móti skapi þar sem nú yrði ekkert rask á fjölskyldunni.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV