Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Amir var sendur úr landi í morgun

02.02.2017 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Amri Shokrogozar, samkynhneigður maður frá Íran var sendur úr landi í morgun. Útlendingastofnun synjaði honum um hæli í fyrra. Samtökin ´78 og Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur skora á íslensk stjórnvöld að standa við skuldbindingu sína um að taka tillit til sérstakrar stöðu hinsegin flóttafólks. 

Amir fór með flugi til Milano þar sem yfirvöld í Ítalíu taka á móti honum. Hann á íslenskan unnusta sem varð eftir hér á landi.

Útlendingastofnun synjaði beiðni Amirs um hæli í febrúar á síðasta ári og staðfesti kærunefnd útlendingamála niðurstöðuna þar sem hann hafði þegar stöðu flóttamanns á Ítalíu.  

Amir óskaði eftir því að mál hans væri tekið til efnismeðferðar hér á landi vegna viðkvæmrar stöðu hans sem samkynheigðs manns en því var sem sagt hafnað. 

Var nauðgað í flóttamannabúðum á Ítalíu

Amir varð fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi þegar hann var flóttamaður á Ítalíu og vildi því ekki fara aftur þangað. Honum var nauðgað af hópi manna þegar hann var í flóttamannabúðum þar.  Sagði hann í viðtali við RÚV í fyrra að á Ítalíu ætti hann heldur ekki möguleika á vinnu né húsnæði. 

Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun útlendingastofnunar um að vísa honum aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Úrskurðurinn var birtur honum 21 nóvember 2016

Samtökin ´78 og Solaris skora á íslensk stjórnvöld

Samtökin ´78 og Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi sendu frá sér sameiginlega tilkynningu í morgun þar sem þau „skora á íslensk stjórnvöld að standa við skuldbindingu sína um að taka tillit til sérstakrar stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda, sem búa við fjölþætta mismunun vegna kynhneigðar, kyndvitundar eða kyneinkenna.“

Amir hafi nú verið sendur úr landi þrátt fyrir að brottvísunin stefni honum í alvarlega hættu á ofsóknum og ómannúðlegri meðferð. Það sé þvert á þau viðmið sem íslensk stjórnvöld hafi sett sér, m.a. í nýjum lögum um útlendinga frá 2016. 

„Þar er heimild til að taka mál til efnismeðferðar ef sérstakar ástæður liggja fyrir sem ná m.a. yfir mismunun vegna kynhneigðar.“

Í nýju lögunum er ennfremur áréttað að einstaklingur sem hefur orðið fyrir „nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi“ teljist vera í „sérstaklega viðkvæmri stöðu.“ 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV