Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Amazon aldrei greitt út arð

01.08.2017 - 18:20
Mynd: EPA / EPA
Í síðustu var tilkynnt að Jeff Bezos, stofnandi Amazon netverslunarinnar, væri orðinn ríkasti maður heims og hefði tekið fram úr Bill Gates. Það var þó skammgóður vermir þar sem strax daginn eftir féllu hlutabréf í Amazon um 3% í kjölfar ársfjórðungsuppgjörs og Bezos féll því aftur niður í annað sæti.

En hver er Bezos og á hverju byggir þessi gríðarlegi auður hans? Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri hjá Íslandsbanka hefur kynnt sér sögu og uppgjör Amazon og segir erfitt að skilgreina það. „Þetta er undarlegt fyrirtæki. Í stuttu máli þá byrjaði það að selja bækur á netinu og drap þannig risastórar smásölukeðjur bókamarkaði, var jafnvel að selja bækur undir kostnaðarverði,“ segir Björn í samtali við Síðdegisútvarpið. Síðan hafi þeir farið út í hönnun og framleiðslu á Kindle lestölvunum og þannig búið til markað fyrir rafbækur, og í raun búið til nýja dreifileið á þeim líka. „Síðan færa þeir sig út í að selja bara allt mögulegt, og um daginn voru þeir að kaupa Whole Foods fyrir 1500 milljarða króna.“

En Björn segir helstu hagnaðarlind fyrirtækisins ekki vera neitt af ofantöldu. „Hagnaðurinn kemur mestmegnis frá hugbúnaðarþjónustu í skýjalausnum. Ekkert rosalega sexí eða skemmtilegt, bara hefðbundinn hugbúnaður sem þarf til að reka nútímafyrirtæki,“ segir Björn og bætir við að mörg íslensk fyrirtæki kaupa skýjalausnir af Amazon.  

Starfar eins og nýsköpunarfyrirtæki

Jeff Bezos lærði rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði og starfaði í upphafi ferils síns hjá vogunarsjóðum á Wall Street. Árið 1994 lagði hann allt sitt fé, og fékk lánað meira frá foreldrum sínum, í að stofna  netbókaverslunina Amazon í bílskúr fyrir utan Seattle. Það sem hefur einkennt fyrirtækið síðan þá er ævintýralega hraður vöxtur en það er nú 50.000 milljarða króna virði og fjórða verðmætasta fyrirtæki í heimi. Björn segir að þrátt fyrir þessa gríðarlegu stærð og það að tekjuvöxtur hafi verið yfir 20% síðasta áratug starfi fyrirtækið að mörgu leyti eins og nýsköpunarfyrirtæki. „Amazon hefur aldrei greitt út arð og hver einasta króna er notuð til að vaxa. Þeir eyða miklum peningum í þróunarverkefni og eru duglegir að taka sénsa. Þeir eru í raun hátæknifyrirtæki í samkeppni við Google og Apple með hönnun á gervigreind.“

Tilraunaskot eldflaugarinnar The New Shepard, sem Blue Origin skaut upp í október.

Jeff Bezos á nú um 17% í fyrirtækinu þar sem hann starfar ennþá sem forstjóri og stjórnarmaður. En hann hefur einnig beitt kröftum sínum annars staða og stofnaði árið 2000 fyrirtækið Blue Origin sem þróar endurnýtanlegar eldflaugar sem nýta á í geimtúrisma. Þá keypti hann nýlega dagblaðið Washington Post.

Rætt var við Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóra Íslandsbanka í Síðdegisútvarpinu.