„Þegar Bragi á í hlut er mjög erfitt að endursegja söguþráðinn,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir, en reynir þó: Bókin fjallar um mæðgin, Möddu og Sigurvin, en faðir Möddu og eiginmaður hennar (faðir Sigurvins) frömdu sjálfsmorð. Bókin gerist aðallega 1976 og svo 40 árum síðar. Mæðginin ætla sér að fara í ferð til Bretlands árið 1976, „En af því þetta er Bragi Ólafsson hugsaði ég með mér hvort þau myndu nokkuð fara í þessa ferð?“ Kolbrún segir Braga leika á mann í bókinni. „Ég er mikill aðdáandi Braga og hef svo gaman af því að ganga inn í þennan sagnaheim og vita aldrei hvert hann er að fara með mann.“
Sverrir Norland segir Braga byggja skáldskap sinn á mjög sértækri tilfinningu. „Hann veit að tilhlökkunin er alltaf skemmtilegust. Við vitum að eitthvað mun gerast en það er í rauninni leiðin að því sem er aðalatriðið, svo fáum við varla að sjá það gerast.“ Bragi er ákaflega fyndinn höfundur, að mati Kolbrúnar, en það sé þó þungur og undirliggjandi harmur í sögunni. „Harmur þessarar konu sem segir að mestu leyti söguna. Hún grætur tvisvar í bókinni, en hún bara heldur áfram. Algjör hvunndagshetja.“
Sagan er að stórum hluta sögð í gegnum dagbókarskrif Möddu. „Mér fannst hann skrifa þessa konu af ákaflega mikilli næmni, afskaplega sannfærandi,“ segir Sverrir. „Þögul og sterk kona sem ber harm sinn í hljóði. Svo þessir fyrirferðamiklu og yfirgengilegu karlmenn í kringum hana, sem fara á fyllirí og brjóta og bramla. En mér finnst líka bara svo gott að hvíla í textanum hans Braga, þetta er svo vel skrifað.“
Í bókinni er mikið af tónlist, og fyrir utan einstakan taktinn í texta Braga þá spila plötur og plötuumslög stóra rullu í framvindunni. Þar er framsækin tónlist frá áttunda áratugnum áberandi, Brian Eno, King Crimson, David Bowie, Roxy Music og Can. Þrátt fyrir að Kolbrún þekkti lítið til þessarar tónlistar fannst henni það ekki koma að sök. „Það truflaði mig alls ekki neitt, ég hugsaði bara hvað Þorgeir okkar [Tryggvason gagnrýnandi Kiljunnar] myndi hafa gaman af þessu.“ Þá koma kvikmyndasýningar í FJalarkettinum á myndum Werners Herzog einnig við sögu.
„Hann segir sjálfur að þetta sé hálf saga, maður veit aldrei hvert hún fer, en styrkur hennar eru persónurnar, það er gott að vera með þeim,“ segir Sverrir. „En svo var dauðinn þarna líka. Ekki bara sjálfsmorð heldur morð, fleiri en eitt. Óskaplega margt í þessu,“ bætir Kolbrún við. „En svo er líka svo skemmtilegt við Braga, hann er að skrifa alvöru skáldskap. Það er erfitt að súmmera upp hvað hann er að gera, það þarf bara að lesa bókina,“ segir Sverrir að lokum.