Alvarlegt rútuslys: „Aðstæður mjög slæmar“

10.01.2020 - 18:14
Mynd: Jóhannes Sigurðsson / Aðsend mynd
Aðstæður eru mjög slæmar á vettvangi rútuslyssins sem varð suður af Blönduósi á fimmta tímanum í dag. Rúmlega 40 manns voru í rútunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar er væntanleg á staðinn á næsta klukkutímanum.

„Aðstæður eru mjög slæmar. Það er vont veður en það er tekist á við þetta af fullri hörku og mætt því sem mæta skal,“ sagði Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarna, í viðtali við Arnhildi Hálfdánardóttur í Speglinum nú rétt eftir klukkan sex.

Hjálmar staðfestir að rúmlega 40 manns hafi verið í rútunni, en ekki eru komnar nákvæmar fréttir af meiðslum. „Það er talað um að þetta sé lítið, en engu að síður háalvarlegt slys,“ sagði Hjálmar.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og er hún væntanleg á slysstað á næsta klukkutímanum.

„Það er verið að gera ráðstafanir út af veðri svo hún geti lent, en ég reikna með að hún verði tiltæk á staðnum á næsta klukkutímanum.“

Hjálmar segir að slasaðir verði fluttir á Blönduós til nánari skoðunar. Svo fari það eftir alvarleika þeirra hvort þeir verði fluttir áfram, þá annað hvort til Akureyrar eða suður til Reykjavíkur.

Uppfært klukkan 19.31

Búið er að flytja alla farþega á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi sem og í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem komið var upp á staðnum. Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Þjóðvegurinn verður áfram lokaður.

Meðfylgjandi eru myndir og myndskeið sem Jóhannes Sigurðsson tók frá vettvangi.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Sigurðsson - Aðsend mynd
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Sigurðsson
Frá vettvangi.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV