Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Alvarlegt að selja nanóvatn í apóteki

05.03.2015 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Apótekarar líta það alvarlegum augum að lyfsali hafi selt svonefnt nanóvatn í apóteki, ekkert leyfi var fyrir framleiðslunni. Formaður lyfsalahóps Samtaka verslunar og þjónustu segir það hafa komið sér mjög á óvart að apótek seldi slíka vöru.

Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innkallaði á mánudag vatn sem selt var undir heitinu Nanoclustered Water og Wayback Water frá fyrirtækinu Energy For You ehf., í eigu Júlíusar Júlíussonar. Fyrirtæki reyndist ekki hafa starfsleyfi og vatnið var framleitt við óöruggar aðstæður, þ.e. í heimahúsi. Fjallað var um Júlíus og vatnið í Kastljósi í fyrrakvöld og þar kom fram að rannsókn Matís hafi leitt í ljós að þetta væri í raun kranavatn. Vatnið fékkst í Heilsutorgi Blómavals og hjá Lyfsalanum Glæsibæ. Lyfsöluleyfishafi þar, Svavar Jóhannesson, vildi ekki veita fréttastofu formlegt viðtal um málið en segist vera miður sín yfir því. Svavar segist hafa tekið vatnið í sölu fyrir rúmu ári og selt af því þrjá brúsa. Þá hafi hann keypt af Júlíusi á um þrjú þúsund krónur en selt út úr apótekinu á fjögur þúsund og fimm hundruð krónur. Það hafi farið að renna á hann tvær grímur í fyrrasumar og því hafi hann tekið vatnið úr hillunum. Svavar segir að umfjöllun Kastljóss hafi vakið sig til umhugsunar. 

Þórbergur Egilsson, formaður lyfsalahóps Samtaka verslunar og þjónustu, segir málið hið sorglegasta.

„Okkur þykir í rauninni mjög sorglegt að það skuli hafa fundist apótek sem var að selja þessa vöru. En í rauninni er það lyfsali hvers apóteks sem ber ábyrgð á því sem hann er að selja í sínu apóteki. Þarna erum við náttúrulega að tala um einstakling með sitt einkarekna apótek. -  Fólk treystir oft því sem er til í apótekunum, óttastu að þetta verði álitshnekkir fyrir apótekara? Við erum að tala um eitt einangrað dæmi og ég vona að viðkomandi lyfsali sjái að sér og skoði sinn gang í kjölfarið en ég hef aldrei heyrt af þvílíku dæmi áður eða sölu á einhverjum svona efnum úr apóteki áður,“ segir Þórbergur.  

Hann segir að apótekarar líti það alvarlegum augum að svona nokkuð geti gerst.

„Þeir gera það tvímælalaust því það er mikill faglegur metnaður í þesusm hópi. Það kemur mér mjög á óvart að apótek skuli hafa selt þessa vöru.  Lyfjafræðingar í  apótekunum eru fagfólk sem á að vita betur og á að þekkja mörkin á því sem söluhæft og bjóðandi og því sem ekki er söluhæft eða bjóðandi.“

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV