Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Alþjóðlega tónskáldaþinginu nýlokið í Palermo

Mynd með færslu
 Mynd: Bergljót Haraldsdóttir

Alþjóðlega tónskáldaþinginu nýlokið í Palermo

26.05.2017 - 12:46

Höfundar

400 ára gamall tónlistarháskóli í Palermo á Sikiley var miðstöð samtímatónlistar eina viku í maí þegar Alþjóðlega tónskáldaþingið stóð yfir í borginni.

Alþjóðlega tónskáldaþingið, Rostrum, var haldið í 64. sinn dagana 15. – 20. maí og fór þingið fram í þetta sinn í Vincenzo Bellini konservartoríinu í Palermo á Ítalíu. Tónskáldaþingið er skipulagt af Alþjóðlegu tónlistarnefndinni (International Music Council) með stuðningi UNESCO og er öflugur vettvangur til kynningar á samtímatónlist. Þar hittast fulltrúar fjölmargra útvarpsstöðva frá öllum heimshornum, kynna tónverk frá sínu heimalandi og skiptast á upptökum af nýjum tónverkum.

Í ár voru á þinginu fulltrúar 29 útvarpsstöðva frá fjórum heimsálfum sem kynntu 58 verk. Framlag RÚV voru tónverkin Aequilibria eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Otoconia eftir Báru Gísladóttur.  Verk Önnu, Aequilibria, var samið árið 2014 fyrir fyrir norsku kammersveitinna BIT20 sem frumflutti það í Björgvin sama ár.  Hér á landi var það frumflutt í janúar sl. á Myrkum músíkdögum af Kammersveit Reykjavíkur undir stjórn Rúnars Óskarssonar. Otoconia, verk Báru Gísladóttur, er skrifað fyrir strengjakvartett og rafhljóð. Það var samið að beiðni Stokkvartettsins Sigga og frumflutt á tónleikum kvartettsins í mars sl.

Tónskáldaþingið er einnig nokkurs konar keppni þar sem þátttakendur velja áhugaverðustu verkin með sérstakri stigagjöf.  Til sérstakra verðlauna í ár unnu verkin Brut eftir pólska tónskáldið Artur Zagajewski, samið fyrir einleiksselló og kammersveit og hljómsveitarverkið Reachings eftir unga, finnska tónskáldið Sebastian Hilli sem var hlutskarpast í flokki tónskálda 30 ára og yngri.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Verðlaunahafarnir Sebastian Hilli og Artur Zagajewski

Í sérstakan heiðursflokk þingsins voru einnig valin eftirtalin verk: Mugarri eftir Ramon Lazkano (Frakkland), Madhye II eftir Shei-Wei Lo (Bandaríkin), Open to Infinity: A Grain of Sand eftir Christian Mason (Bretland), Untitled n. 2 eftir Vittorio Montalti (Ítalía), Fern eftir Kate More (Holland), Was there a Butterfly eftir Onuté Narbutaite (Litháen), To become a tree eftir Elis Vesik (Eistland), Anamorph IX  (Frostblues zur Winterreise) eftir Gerhard E. Winkler (Austurríki), Pocket Enemy eftir Daniel Zea (Sviss), víólukonsertinn „Ithaca" eftir Andreas Zhibaj (Svíþjóð) og tvö verk í flokki ungtónskálda; Four Brief Scenes after Samuel Beckett eftir Sergey Strojkin (Rússland) og L'Atelier de sensorité eftir Szymon Stanislaw Strezelec (Pólland).

Fréttatilkynning Alþjóðlega tónskáldaþingsins 2017