Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Alþingi og bankakerfið með minnst traust

29.10.2014 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd:
54,7 prósent þjóðarinnar bera lítið traust til Alþingis og 66,8 til bankakerfisins samkvæmt nýrri könnun MMR. Lögreglan og Háskóli Íslands bera höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir samfélagsins hvað traust varðar - 79,5 prósent bera mikið traust til lögreglunnar, 70 til HÍ.

Í könnun MMR er spurt hversu mikið eða lítið traust viðkomandi beri til helstu stofnana samfélagsins. 98,2 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar. Lögreglan hefur vermt efsta sætið nokkuð lengi.

Könnun MMR var þó gerð áður en skýrsla lögreglunnar um mótmæli á árunum 2008 til 2011 var gerð opinber.  Þar kom í ljós að viðkvæmar persónuupplýsingar sem áttu að vera faldar væru læsilegar í rafrænni útgáfu.  Á síðasta degi könnunar MMR var fyrst greint frá hríðskotabyssu - málinu í DV.

Á vef MMR kemur fram að á meðan traust til flestra stofnana hafi aukist frá síðustu mælingu hafi dregið úr trausti til ríkisstjórnarinnar og Alþingis. 17,4 prósent sögðust bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar nú en 23 prósent í október í fyrra.  12,8 prósent bera mikið traust til Alþingis nú - 16,4 fyrir ári síðan.

Traust til Landsvirkjunar, stéttarfélaganna, Seðlabankans, Evrópusambandsins , VR, FME og bankakerfisins hefur ekki verið meira frá því að mælingar hófust. Traust á háskólanna hefur aukist nokkuð frá því í október á síðasta ári.

Svarfjöldi var 959 og könnunin var gerð dagana 16. til 21.október.