Almannavarnir stefna á þjónustumiðstöð fyrir vestan

17.01.2020 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Óvissustig almannavarna á norðanverðum Vestfjörðum er enn í gildi. Liðsauki björgunarmanna sem var sendur vestur í kjölfar snjóflóðanna kemur aftur til Reykjavíkur seinnipartinn og það er ekki búið að biðja um fleiri í staðinn fyrir þá.

Á samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð var að ljúka stöðufundur. „Áfallahjálparteymið er með dagskrá sem þau eru búin að skipuleggja, svo er Umhverfisstofnun er á svæðinu til að meta mengun,“ segir Rögnvaldur Ólafsson sem stýrir aðgerðum í Skógarhlíð. Bátar og olíutankar fóru í höfnina í kjölfar snjóflóðanna. „Mér skilst að umfang mengunar sé minna en talið var í fyrstu,“ segir Rögnvaldur jafnframt.

Í næstu viku verða að öllum líkindum íbúafundir á svæðinu. „Síðan erum við að skoða líka hvort það sé ástæða til að opna þjónustumiðstöð almannavarna í næstu viku. Þannig að fólk sem er skilið eftir með einhverjar spurningar og þarf aðstoð til að komast á rétt ról getur þar fengið svar við öllum sínum fyrirspurnum,“ segir Rögnvaldur jafnframt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rögnvaldur Ólafsson.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi