Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Alltaf hægt að finna samstarfsgrundvöll“

10.12.2016 - 13:45
Frá þingsetningu 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, vildu ekki útiloka að flokkarnir tveir gætu rætt saman um myndun ríkisstjórnar ef ekkert kemur út úr viðræðum flokkanna fimm. „Ég sé Sjálfstæðisflokkinn ná saman með langflestum ef ekki öllum flokkum. Ég held að það sé alltaf hægt að finna samstarfsgrundvöll,“ segir Áslaug.

Flokkarnir fimm - Viðreisn, Píratar, VG, Samfylking og Björt framtíð - hittast á fundi í dag. Forystumenn Pírata hafa síðasta sólarhringinn lýst því yfir að þeir séu mjög bjartsýnir á framhaldið - Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði til að mynda í þætti Gísla Marteins í gærkvöld að níutíu prósent líkur væru á því að ný ríkisstjórn liti dagsins ljós fyrir föstudag.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tók í sama streng í Vikulokunum á Rás 1 í morgun og sagði viðræður flokkanna komnar lengra á veg en síðast. Þau ummæli komu Birni Val Gíslasyni, varaformanni VG, verulega á óvart. „Ég vildi eiginlega gjarnan að Smári fengi aftur orðið og útskýrði fyrir okkur hversu langt þetta væri komið og hvenær væri þá von á ríkisstjórn.“

Viðræður flokkanna fimm eru fjórða tilraunin til að mynda nýja ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð hafa reynt sem og flokkarnir fimm undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.  Þá ræddu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og Katrín óformlega saman og upplýstu forseta Íslands um þær viðræður. Þeim viðræðum var þó ekki haldið áfram.

Björn Valur vildi í morgun ekki útiloka að þær viðræður yrðu teknar upp að nýju ef uppúr fimmflokka-samstarfinu slitnaði. „Ég tel að ef við verðum ekki í ríkisstjórn er ekkert annað í boði en bara hægri stjórn.“ Hann sagði suma hafa talað fyrir samstarfi VG og Sjálfstæðisflokksins - sérstaklega í hans  kjördæmi. „Fólk sér ákveðna snertifleti varðandi landsbyggðarmálin sem ætti að vera auðveldara að ná saman um frekar en með Viðreisn eða Bjartri framtíð.“ Himinn og haf væri síðan í öðrum málum. „En við getum ekki leyft okkur að útiloka neinn - úrslit kosninganna voru einfaldlega þannig.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það hafa verið sjálfsagt mál og eðlilegt að tveir stærstu flokkarnir ræddu saman eftir kosningarnar og reyndu að finna samstarfsgrundvöll. „Auðvitað hefur það verið reynt - BJarni [Benediktsson] vildi mynda sterka og breiða stjórn sem myndi endurspegla betur þá kjósendur sem við höfum hérna í landinu.“

Hún fagnaði ummælum Björns Vals og sagði ágætt að menn væru komnir á þennan stað - menn væru hættir að útiloka samstarf við ákveðna flokka. „Það er lýðræðisleg skylda okkar að mynda starfhæfa ríkisstjórn og það hefur verið að skapa ákveðin vandræði hvaða línur fólk setti til að útiloka samstarf við ákveðna flokka.“ Sjö flokkar væru á þingi í fyrsta skipti og það væri því flóknara en áður að mynda ríkisstjórn.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV