Allt um viðskiptabann Rússa

13.08.2015 - 11:04
epa04706816 Russian President Vladimir Putin holds an annual Q&A (question-and-answer) nationwide live-broadcast TV and radio session in Moscow, Russia, 16 April 2015. During the session Vladimir Putin said that lifting of international sanctions
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. Mynd: EPA - RIA NOVOSTI POOL
Rússar hafa sett viðskiptabann á vörur frá Íslandi og fjórum öðrum löndum. Dimitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, tilkynnti þetta á ríkisstjórnarfundi í dag. Fréttastofa hefur fylgst með málinu í dag.

Fréttir um viðskiptabannið komu fyrst fram  á vef Tass-fréttastofunnar. Medvedev sagði að fjölmörg lönd í Evrópu ættu margt undir Evrópusambandinu en styddu ekki refsiaðgerðir gegn Rússum. „Þetta er því meðvituð ákvörðun hjá þessum fimm löndum að styðja þessar aðgerðir.“

Arkady Dvorkovich, varaforsætisráðherra Rússlands, sagði við fréttamenn í heimsókn sinni til Krasnodar í gær, að ákvörðun um viðskiptabann gegn þeim sjö löndum sem styðja viðskiptabann ESB og Bandaríkjanna, yrði tekin á næstunni. Búið væri að senda tillögu yfir þær vörur sem bannið næði til.

Tæpur hálfur mánuður er síðan Dmitry Peskov, talsmaður stjórnarinnar í Kreml, lýsti því yfir að til greina kæmi að beita Ísland viðskiptaþvingunum. „Meginreglan er sú að menn gjalda líku líkt,“ var haft eftir Peskov. Þá hafði Evrópusambandið birt yfirlýsingu þess efnis að sjö lönd, meðal annars Ísland, styddu áframhaldandi aðgerðir gegn Rússum.

Fyrir viku síðan fyrirskipaði Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, embættismönnum að kanna hvort beita ætti refsiaðgerðum gegn Evrópuríkjum sem stæðu utan ESB.  Sama dag birtust fréttir þess efnis á Russia Today að frumvarp um viðskiptabann væri í smíðum í landbúnaðarráðuneytinu.

Dvorkovich sagði við fréttamenn í dag að nú væri verið að útfæra ákveðin smáatriði og ræða lítil deilumál - ákvörðunar væri að vænta innan skamms.

Viðskiptabannið hefði mikil áhrif á íslenskan sjávarútveg - forsvarsmenn hans hafa gagnrýnt stuðning Íslands við viðskiptaþvinganirnar. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði að þessar hindranir koma mjög illa við íslenskt efnahagslíf. „Mér er það til efs að það sé svo í nokkru landi að grein eins og sjávarútvegurinn og stór hluti nokkurrar greinar sem er svona mikilvæg verði svona illa fyrir barðinu á þessum tilteknu viðskiptaþvingunum.“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að Ísland eigi að hætta að styðja viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi.  Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur hins vegar verið mjög afdráttarlaus í afstöðu sinni - íslensk stjórnvöld muni áfram styðja refsiaðgerðir gegn Rússum þrátt fyrir áætlanir þeirra umað banna innflutning á matvælum frá Íslandi.

 

hallaoddny's picture
Halla Oddný Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi