Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt lokað á Vestfjörðum fram eftir degi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Nær allar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar eða lokaðar vegna snjóflóðahættu. Appelsínugul viðvörun er í gildi til þrjú í dag og enginn mokstur kemur til greina fyrr en í fyrsta lagi eftir klukkan tvö.

Lokað er um Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg vegna snjóflóðahættu. Eins er Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdals lokuð vegna snjóflóðs sem féll þar á veginn í gær. Þröskuldar, Steingrímsfjarðarheiði og Djúpvegur eru allir lokaðir og ófærir. Enn er stormur á Þröskuldum þar sem vindhviður slá í 26 metra á sekúndu.

Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir að beðið sé með mokstur en byrjað verði á hættuminnstu vegarköflunum.

„Því að auðvitað þegar það er mikill snjór þá tekur snjómokstur langan tíma og ef einhverjir blettir eru undir áhættu þá er betra að sjá til. Því að auðvitað eykst áhættan eftir því sem við förum hægar yfir ákveðna vegarkafla.“

Guðmundur segir ekki koma til greina að opna frá Ísafirði til Flateyrar.

„Það er bara ekki inni í myndinni vegna snjóflóðahættu. Flateyri er leyst með varðskipinu núna bara í bili. Þannig það eru engin bein vandamál varðandi það,“ segir hann.

Þá segir Guðmundur flugvöllurinn á Ísafirði verði ekki opnaður í dag þar sem hætta er á að snjóflóð falli á afleggjarann frá Djúpvegi að vellinum. Því kemur flug vestur ekki til greina fyrr en í fyrsta lagi á morgun.